ÁTVR hefur ákveðið að gefa áfengisheildsölum, sem höfðu fengið höfnun á skráningu vörutegunda, færi á að skrá vörurnar að nýju og hefja sölu á þeim. Kemur ákvörðun ÁTVR í kjölfar niðurstöðu EFTA dómstólsins í máli HOB-vín ehf. gegn ÁTVR, en þar var ákvörðun ÁTVR um að selja ekki tvær vörutegundir dæmd ólögleg.

Sídertegundirnar tvær, Tempt 7 Cider Elderflower & Blueberry og Tempt9 Cider Strawberry Lime, voru ekki teknar til sölu í verslunum ÁTVR á sínum tíma þar sem umbúðirnar töldust ekki uppfylla velsæmiskröfur ÁTVR. Þær verða nú teknar til sölu í Heiðrúnu og verslunum ÁTVR í Kringlunni og Skútuvogi.