Eins og fram kemur í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins spurðist blaðið fyrir um tíðar ferðir starfsmanna Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR) en starfsmenn ríkisfyrirtækisins fóru í a.m.k. 30 utanlandsferðir á kostnað skattgreiðenda á síðasta ári.

Farnar voru sex ferðir á fundi „vegna samfélagslegrar ábyrgðar“ með norrænum einkasölum. Flestir fundirnir fóru fram á Norðurlöndunum en þá voru farnar tvær ferðir til Argentínu og Síle. Ýmsar ástæður voru gefnar fyrir hinum 24 ferðunum, s.s. vínsýning, vínferð og aðrir fundir eða ráðstefnur vegna áfengis- og tóbaksmála.

Viðskiptablaðið spurðist fyrir um frekari sundurliðun á tilgangi 24 ferða sem farnar voru (þ.e. ferðirnar fyrir utan samfélagslegu verkefnin) í ljósi þess að ÁTVR flytur ekki inn eina einustu flösku af áfengi heldur eru vörur ríkisverslunarinnar fluttar inn í gegnum sjálfstæða heildsala

Í svari ÁTVR kemur fram að fyrirtækið eigi ekki umbeðna sundurliðun fyrirliggjandi. Þá er gerð athugasemd við að í fyrirspurn Viðskiptablaðsins sé látið að því liggja að þar sem fyrirtækið stundi ekki neinn innflutning að því er vitað sé séu ferðirnar óhóflegar.

„Það er rétt að ÁTVR stundar engan innflutning áfengis. Verkefni fyrirtækisins eru hins vegar mörg og umfangsmikil,“ segir í svari ÁTVR og í kjölfarið eru talin upp helstu verkefnin, m.a. innkaup á áfengi og tóbaki, birgðahald og dreifing, rekstur verslana o.s.frv.

„Hjá ÁTVR starfa árlega rúmlega 600 manns og velta fyrirtækisins er um 30 milljarðar króna,“ segir í svari ÁTVR.

„Margþætt hlutverk ÁTVR kallar á umfangsmikið starf sem útheimtir utanlandsferðir starfsmanna m.a. til þess að sinna erlendu samstarfi og til þess að afla nauðsynlegs fróðleiks og upplýsinga. [...] ÁTVR vill enn ítreka að það harmar að Viðskiptablaðið skuli hafa dregið þá einhliða ályktun að ferðalög starfsmanna fyrirtækisins hafi verið óhófleg. ÁTVR telur þvert á móti að ferðafjöldi hafi verið hóflegur miðað við þau umfangsmiklu verkefni sem fyrirtækið gegnir. Þá vill ÁTVR undirstrika að það telur að ekkert sé óeðlilegt við þátttöku fyrirtækisins í norrænu samstarfsverkefni um samfélagslega ábyrgð vínframleiðenda.“

Nánar er fjallað um utanlandsferðir starfsmanna ÁTVR og svar ríkisfyrirtækisins við fyrirspurnum Viðskiptablaðsins í nýjasta tölublaði blaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu af blaðinu undir liðnum tölublöð hér að ofan.

Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR.
Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR.

Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR.