Auðæfi bandarískra milljarðamæringa hafa aukist um 1.000 milljarða dollara, eða nærri 40%, síðan kórónuveirufaraldurinn fór að láta verulega á sér kræla um miðjan mars á síðasta ári að því er CNN greinir frá .

Hlutabréfamarkaðir vestanhafs hafa verið á miklu flugi undanfarna mánuði og hefur það keyrt áfram auðæfasköpun milljarðamæringana. Má sem dæmi nefna að auðæfi Teslu forstjórans, Elons Musk, hafa aukist um 155 milljarða dollara á umræddu tímabili.

46 einstaklingar hafa bæst við lista yfir bandaríska milljarðamæringa frá 18. mars á síðasta ári, en viku áður lýsti Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) því yfir að COVID-19 faraldurinn væri heimsfaraldur.

Heildarauðæfi milljarðamæringa Bandaríkjanna, sem eru 660 talsins, nema í dag um 4.100 milljörðum dollara, sem er 2/3 hærri upphæð en heildarvirði eigna fátækari helmings bandarísku þjóðarinnar.