Þegar litið er til fjölda brota, greint eftir helstu brotaflokkum, má sjá að frá árinu 2009 til 2012 hefur orðið fækkun á auðgunarbrotum, eignaspjöllum og tilvikum um nytjastuld. Fíkniefna- og kynferðisbrotum hefur hins vegar fjölgað.

Þetta kemur fram í bráðabirgðatölum Ríkislögreglustjóra um fjölda afbrota í landinu öllu fyrir árið 2012. Ef litið er til fjölda brota að meðaltali á dag árið 2012, voru auðgunarbrot að meðaltali 18, eignaspjöll tæp sex, fíkniefnabrot rúmlega fimm og ofbeldisbrot rúmlega þrjú að meðaltali á dag.

Samkvæmt tölunum voru hegningarlagabrot 11.873, eða 6% færri en árið 2011 en þar hefur fækkun auðgunarbrota mest áhrif. Hegningarlagabrot hafa aldrei verið færri síðan skráning brota á landsvísu hófst, við lok síðustu aldamóta.

Á árinu 2012 voru þjófnaðir og innbrot 85% allra auðgunarbrota en skráðir voru 4.155 þjófnaðir og 1.388 innbrot. Fjöldi þjófnaða og innbrota náði hámarki árið 2009, en brotunum hefur farið fækkandi síðan þá, þó innbrotum meira en þjófnuðum.

Sérrefsilagabrot og umferðarlagbrot voru hins vegar fleiri en árið 2011. Sérrefsilagabrot voru 4.715, og því fleiri en síðustu fjögur ár á undan. Umferðarlagabrot voru 45.547 sem er 13% fjölgun frá 2011 en 9% fækkun miðað við meðaltal áranna 2009-2011. Heildarfjöldi brota var meiri en árið 2011, sem má að mestu rekja til fjölgunar umferðarlagabrota.

Sjá nánar á Lögregluvefnum.