Auðhumla, samvinnufélag mjólkurframleiðenda, gagnrýnir umfjöllun Ríkisútvarpsins um mögulegan hagsmunaárekstur sem gæti stafað af því að Auðhumla svf. leigði Framkvæmdasýslu ríkisins húsnæði. Þetta kemur fram í frétt á vefsvæði Auðhumlu. Fyrirsögn fréttarinnar er: „Furðuleg ekki frétt RÚV“.

Í frétt Ríkisútvarpsins kom meðal annars fram að höfuðstöðvar Matvælastofnunar væru í eigu móðurfélags Mjólkursamsölunnar og þar með kúabænda. Að mati Sigurbjargar Sigurgeirsdóttur stjórnsýslufræðings er þetta fyrirkomulag óheppilegt.

Forsvarsmenn Auðhumlu telja það furðulegan málatilbúnað að leiga Framkvæmdasýslu ríkisins á húsnæði fyrir MAST geti haft áhrif á eftirlitsstarfsemi stofnunarinnar.

Engin vanhæfi sem geta risið

„Margar ríkisstofnanir eru í húsnæði í eigu bæði banka og fasteignafélaga og hafa úrskurðað um málefni þeirra á meðan þær starfa í leiguhúsnæði í þeirra eigu. Sem eðlilegt er enda engin vanhæfi vandamál sem geta risið af þessu fyrirkomulagi. [...]Samkeppniseftirlitið er í húsnæði í eigu fasteignafélagsins Eikar, sem bankarnir m.a Arion Banki og lífeyrissjóðir eiga hlut í. Samkeppniseftirlitið hefur ítrekað úrskurðað um málefni þessara aðila td. með Ákvörðun 13/2016 og 9/2017.Slík dæmi um stjórnsýslustofnanir og jafnvel dómsstóla eru mýmörg og skipta engu mál,“ segir í frétt Auðhumlu.