Auðhumla, samvinnufélag mjólkurbænda, hagnaðist um 364 milljónir króna eftir skatta árið 2016. Árið áður tapaði félagið 137 milljónum króna og því var 501 milljóna króna viðsnúningur á rekstri samstæðunnar á milli ára. Þetta kemur fram í ársskýrslu félagsins.

Árið í fyrra var metár í framleiðslu og sölu mjólkurafurða á Íslandi. Sala mæld í fitugrunni var 139 milljónir lítra og jókst um 5% milli ára. Einnig kemur fram að salan fyrstu þrjá mánuði þessi árs bendir til áframhaldandi söluaukningar.

Rekstrartekjur samstæðunnar námu 28,7 milljörðum samanborið við 26,7 milljarða árið áður. Rekstrarhagnaður félagsins nam 914 milljónum króna árið 2016 samanborið við 110,7 milljón króna rekstrarhagnað árið áður. Eignir Auðhumlu voru metnar á 15,3 milljarða í lok árs 2016. og skuldaði samstæðan 7,8 milljarða á sama tíma. Eigið fé félagsins nam 7,5 milljörðum í lok árs 2016.

Auðhumla er samvinnufélag í eigu um 600 mjólkurframleiðenda um land allt. Félagið hefur það hlutverk að taka mjólk frá félagsmönnum sínum og umbreyta þeim í mjólkurafurðir. Auðhumla er móðurfélag Mjólkursamsölunnar (MS).