Þýsku lúxusbílaframleiðendurnir hafa aukið söluna samfleytt um langt skeið og hafa þeir aldrei í sögunni selt fleiri bíla. Salan hjá Mercedes-Benz hefur aukist í hverjum mánuði í 30 mánuði samfleytt. Svipaða sögu er að segja af BMW, Audi og Porsche.

Mercedes-Benz seldi flesta bíla í ágúst, eða 146.119. BMW seldi 135.735 og Audi 128.650. Sölutölur vegna Porsche hafa ekki verið birtar nema fyrir einstaka markaði en aukningin var 24% í Bandaríkjunum í ágúst. Porsche selur mun færri bíla en hinir stóru, eða um 20-25 þúsund bíla á mánuði.

Mercedes-Benz í annað sæti

Það sem af er ári hefur BMW selt flesta bíla, eða 1.215.289 eintök. Mercedes-Benz er komið í annað sæti með 1.194.297 bíla. Audi er í þriðja sæti með 1.177.100 selda bíla.

Því var spáð í júlí í Bílum, bílablaði Viðskiptablaðsins, að Mercedes-Benz næði fram úr Audi ágúst. Þá var því spáð að uppsafnaður munur yrði um 2.018 bílum Mercedes í vil. Munurinn er hins vegar rúmir 17 þúsund bílar.  Ljóst var að í þetta stefndi í ágúst , þegar framleiðendurnir birtu sölutölur fyrir júlí.

Ástæðan er sú að Mercedes hefur aukið söluna úr 14,7% að meðaltali fyrstu 6 mánuðina í 15,9% fyrstu átta mánuðina. Salan jókst í ágúst um 17,2% og 15,2% í júlí. Á sama tíma hefur dregið úr söluaukningunni hjá Audi. Hún var 3,8% á fyrstu sex mánuðina en er komin í 3,4% fyrstu átta mánuðina en var 2,7% í ágúst. Rétt eins og í ágúst þá minnkar salan hjá Audi í Kína, á mikilvægasta einum markaði framleiðandans. Samdrátturinn var 4,1% en aukingin Mercedes Benz var hins vegar 53,1%.

Heldur BMW 1.sætinu?

Því var jafnframt spáð í júlí að Mercedes-Benz næði fram úr BMW í janúar á næsta ári. Söluaukningin hjá BMW hefur hefur verið svolítið meiri síðustu tvo mánuði en að meðaltali fyrstu sex mánuðina þegar spáin var sett fram, farið úr 5,2% í 5,5%.

Að öllu óbreytt mun BMW selja 1.083 bílum meira en Mercedes-Benz í ár, en samkvæmt spá okkar í júlí voru það 12 þúsund bílar, BMW í vil.

Munurinn er innan skekkjumarka og getur gullið bæði endað í Munchen og Stuttgart í ár. Ef hins vegar aukningin verður áfram sú sama þá er víst að Mercedes-Benz söluhæsti bíllinn árið 2016.

BMW hefur selt flesta lúxusbíla frá 2005. Hér má sjá söluna frá 2007.