Sádí-Arabíski prinsinn Alwaleed bin Talal al-Saud segir yfirvöld þar í landi gera of lítið úr lækkandi olíuverði. Telur hann ástandið á heimsmarkaði geta haft slæmar afleiðingar fyrir ríkið. Financial Times greinir frá.

Alwaleed skrifar opið bréf til stjórnvalda þar sem hann bendir á að 90% fjárlaga ríkisins fyrir árið 2014 hafi reitt sig á olíutekjur. Það geti því haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir landið að gera of lítið úr vandanum.

Prinsinn lýsti yfir sömu áhyggjum fyrir ári síðan þegar aukið framboð af leirsteinsolíu og minni eftirspurn á Asíumarkaði ollu lækkun á heimsmarkaðsverði.

Nú hefur olíuverðið hins vegar áfram farið hríðlækkandi frá því sumar og kostar tunnan nú í kringum 60 bandaríkjadali. Til þess að koma út á sléttu þarf verð á tunnu í Sádí-Arabíu að nema 106 dölum, og er verðið því komið nokkuð langt frá því sem telst ásættanlegt þar í landi.