Fyrirtækið Authenteq hefur þróað lausn fyrir rafræn skilríki á alþjóðlegum mörkuðum en langtímamarkmiðið er að geta einn daginn orðið alheimsauð- kenni. Hugmyndin byggir á því að geyma upplýsingarnar með svokallaðri „blockchain“ tækni sem er sama tækni og er notuð til að geyma upplýsingar um Bitcoin viðskipti. Authenteq vinnur nú með nokkrum samstarfsaðilum erlendis við að prófa þjónustuna áður en hún fer á almennan markað. Hjá fyrirtækinu starfa ellefu manns en það er bæði með skrifstofur í Reykjavík og í Berlín.

Kári segir að það hafi ekki gerst á einu augnabliki að hugmyndinni hafi fæðst heldur hafi verið farið af stað með einfaldari hugmynd sem varð síðar að Authenteq-auðkennishugbúnaðinum.

„Upphaflega var þetta einfalt ljósmyndaforrit sem sá um að taka myndir sem ekki var hægt að breyta. Þannig var hugsunin að það væri hægt að taka mynd til dæmis af bíl með rispu á tilteknum og sýna fram á með tryggilegum hætti að hún hefði verið þar áður þegar bílnum var skilað og ekki hefði verið átt við myndina. Við vorum valdir í Startup Reykjavík hraðalinn þar sem við gátum tekið þessa hugmynd og unnið úr henni.

Eftir hraðalinn þróaðist þetta áfram og úr varð þessi lausn að auðkenna fólk með einföldum og tryggilegum hætti. Tækniþróunarsjóður hefur svo stutt dyggilega við bakið á okkur enda er hér á ferðinni stuðningur við ung sprotafyrirtæki sem á sér fáar hliðstæður í öðrum löndum.“

Ætla sér ekki að græða á persónuupplýsingum

Í grunninn virkar lausnin þannig að notandinn hleður niður snjallforriti í símann sem hann fær annaðhvort beint frá Authenteq eða samstarfsaðilum þess, tekur sjálfu af sér með símanum og tengir það svo við vegabréfið sitt. „Við notum þráðlausu NFCtæknina til að tengja forritið við vegabréfið og getum þannig vitað að upplýsingarnar eru réttar því að kubbarnir sem eru í vegabréfunum eru undirritaðir rafrænt frá útgefandi landi,“ segir Kári Þór Rúnarsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Authenteq. Hann segir jafnframt að algrím (e. algorithm) séu nýtt til þess að bera saman andlitið sem hlaðið er inn í kerfið og það sem er á vegabréfinu. „Við nýtum nýjustu tækniframfarir og gervigreind til að ganga úr skugga um að manneskjan sem verið er að taka myndina af, sé alvöru manneskja en ekki mynd af annarri ljósmynd eða upp úr myndbandi,“ segir Kári Þór.

„Við hönnuðum kerfið þannig að við höfum ekki aðgang að persónuupplýsingum heldur getum eingöngu staðfest að viðkomandi sé sá sem hann segist vera. Við erum frá- brugðnir öðrum að því leyti að við erum eina fyrirtækið sem er ekki að reyna að græða á persónuupplýsingunum sjálfum,“ segir Kári Þór

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .