Breski auðkýfingurinn sir Richard George hefur keypt ellefu íslenska hesta fyrir um 100 milljónir króna í febrúar, samkvæmt fréttavefnum Vísir.is . Hestarnir eru á bænum Lækjamóti í Víðidal í Húnaþingi vestra. Eins og vb.is greindi frá í gær er sir George hestaáhugamaður og lánar hann fjármagn til byggingar um 2.500 fermetra hesthúss og reiðhallar við bæinn. Vísir segir að algengt verð á hestum í svipuðum flokki í kringum 10 milljónir króna.

Haft var eftir Ísólfi Líndal , bónda, reiðkennara og tamningamanni á Lækjamóti, í umfjöllun vb.is um málið í gær að hesthúsið verði ekki hallærislegt. Þar eigi að fara vel um bæði menn og hesta. Sir George er mikill áhugamaður um hesta og íslenska náttúru og kynntist Ísólfur honum í gegnum reiðkennslu á Englandi.

Auður sir George byggist á sölu á Weetabix-framleiðslu fjölskyldunnar fyrir tíu árum. Hann og eigendur fyrirtækisins fengu jafnvirði tæpra 80 milljarða íslenskra króna við söluna.