Ríkisstjórnin hyggst framlengja auðlegðarskattinn en til stóð að afnema skattinn árið 2013. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag og er vitnað í viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar vegna sjöttu og síðustu endurskoðunar efnahagsáætlunar Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Blaðið leitaði svara hjá aðstoðarmanni fjármálaráðherra sem svaraði því til að tillögur um tekjur og gjöld hins opinbera myndu liggja fyrir í október. Auðlegðarskattur er 1,5% af hreinni eign umfram 75 milljónir króna fyrir einstaklinga og 100 milljónir fyrir hjón.