Álagning eignarskatts á ný, líkt og sumir flokkar hafa lagt til, gæti reynst flókin í framkvæmd og löggjafinn þarf að stíga varlega til jarðar. Þetta er mat Jóns Elvars Guðmundssonar lögmanns og einn eigenda LOGOS í grein sem birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.

Jón bendir á að í dómi Hæstaréttar um lögmæti auðlegðarskatts sem lagður var á eftir hrun hafi komið fram að takmörk sé fyrir því hversu langt löggjafinn geti gengið við skattlagningu á eignum einstaklinga. Hæstiréttur komst engu síður að þeirri niðurstöðu að hægt sé að skattleggja eignir án þess að brotið sé gegn reglum stjórnarskrár um eignarrétt og jafnræði.

Ekki hægt að beina gegn einstökum mönnum

Jón bendir á að Hæstiréttur hafi komist að þeirri niðurstöðu að ekki mætti ganga svo langt í skattheimtu gagnvart einstökum mönnum að þeim sé mismunað á ótilhlýðilegan hátt í samanburði við aðra. „Nái skatturinn til fámenns hóps skattborgara kann það að veita vísbendingu um að of nærri þeim hafi verið gengið, en fjöldinn einn sker þó ekki úr, heldur hvort skattlagningu sé gagngert beint að einstökum mönnum án þess að það sé gert á málefnalegan hátt,“ segir í dómi Hæstaréttar.

Þá skipti einnig máli við hvaða aðstæður lögin séu sett og hve íþyngjandi hann sé. „Þar sem auðlegðarskattur er ein tegund eignarskatts skiptir ekki síst máli að gæta að því hversu íþyngjandi hann er til lengri tíma litið vegna þess að því hærra sem skatthlutfallið er samanlagt á stuttu árabili þeim mun meiri líkur eru á að skattlagningunni megi jafna til eignaupptöku í skilningi 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar.“ segir dómnum.

Þarf að stíga varlega til jarðar

Jón bendir á að nú séu uppi allt aðrar aðstæður í þjóðfélaginu en þegar auðlegðarskatturinn var lagður á eftir hrun. „Fyrir réttinum var deilt um þriggja ára tímabil þar sem uppsafnað skatthlutfall almenns auðlegðarskatts var 4,75% og viðbótarauðlegðarskatts 2,75%. Nú ætti ekki að vera sérstaklega umdeilt að þarna var um verulega skattlagningu að ræða,“ segir Jón.

„Af þessu verður varla dregin önnur ályktun en að löggjafinn þurfi að stíga mjög varlega til jarðar ef nú, örfáum árum eftir að auðlegðarskattinn rann sitt skeið, kemur til greina að leggja eignaskatt á fámennan hóp einstaklinga. Rökstuðningur Hæstaréttar gefur ekki tilefni til þess að ætla að það sé hægur leikur. Þvert á móti má ráða af honum að gæta þurfi vel að því hvort það sé yfirhöfuð mögulegt að leggja slíkan skatt á við núverandi aðstæður – og ef það er hægt er alls ekki ljóst að skatthlutfall geti verið nema mjög takmarkað og mun lægra heldur en við þær aðstæður sem ríktu í kjölfar ársins 2008,“ segir Jón.