*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Innlent 22. maí 2013 12:12

Auðlegðarskattur renni út um áramótin

Bjarni Benediktsson segir ekki víst hvort auðlegðarskattur standist stjórnarskrá.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Til skoðunar verður hjá næstu ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks að láta auðlegðarskattinn falla niður um næstu áramót. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði spurður um breytingar næstu ríkisstjórnar í samtali við fréttastofu RÚV.

Bjarni sagði auðlegðarskatinn hluta af arfleifð fráfarandi ríkissstjórnar og séu áhöld um það hvort hann standist stjórnarskrá. 

Auðlegðarskatturinn var einn af þeim nýju sköttum sem fjármálaráðherra lagði á árið 2009 og í gildi fram á næsta ár. Skatturinn, er í raun eignaskattur, leggst einna helst á hjón sem eru eldri en 51 árs og einstaklinga sem eru eldri en 67 ára. Þeir sem féllu undir auðlegðarskattinn greiddu hann í fyrsta skipti árið 2010. 

Tekist á um auðlegðarskatt fyrir dómi

Vb.is greindi frá því í síðustu viku að Guðrún Lárusdóttir, framkvæmdastjóri Stálskipa í Hafnarfirði, hafi stefnt ríkinu til að fella niður auðlegðarskattlagningu á hendur sér og krefst hún þess að ríkissjóður endurgreiði 35 milljónir króna sem hún hefur greitt í auðlegðarskatt. Guðrún telur skattlagninguna brjóta í bága við eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Tekist er um mál hennar í Héraðsdómi Reykjavíkur en í stefnu hennar á hendur ríkinu er m.a. vísað í ákvæði laga og mannréttindasáttmála Evrópu um skatta. Gagnaöflun í málinu stendur enn yfir og liggur ekki fyrir hvenær aðalmeðferð fer fram í því.  Þetta var fyrsta málið af þessum toga svo vitað sé sem hefur ratað fyrir dómsstóla.