Sérstakur auðlegðarskattur sem lagður var á í fyrsta sinn í fyrra skilaði ríkissjóði 3,8 milljörðum króna. Í ár var skatthlutfallið hækkað, eignamörk lækkuð og skattinum skipt í tvö þrep. Það skilaði sér í 6,6 milljarða króna auðlegðarskatti á sama tíma og eignir og eigið fé framteljenda hafi lækkað á milli ára.

Um 3.800 einstaklingar greiddu auðlegðarskatt í fyrra en vegna breytinganna, fyrst og fremst vegna lækkunar viðmiðunarmarka, voru greiðendur þúsund fleiri í ár eða 4.800.

Vilhjálmur Bjarnason
Vilhjálmur Bjarnason
© BIG (VB MYND/BIG)

Samkvæmt nýju frumvarpi um aðgerðir í skattamálum sem lagt hefur verið fram á Alþingi á enn að hækka auðlegðarskattinn. Þegar hin hreina eign er að mestu leyti bundin í fasteignum en aðrar tekjur eru hverfandi eða mjög litlar þá getur sú staða komið upp að menn þurfi að selja eignir til þess að standa skil á skattinum. Dæmi eru um það að eignafólk hafi flutt úr landi vegna skattsins.

Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, segir auðlegðarskattinn gera skráð verðbréf ekki eins aðlaðandi og óskráð verðbréf. Þar sem skatturinn miðist við eigið fé en ekki markaðsvirði þá geti það komið í veg fyrir að eigendur vaxtarfyrirtækja sjái hag í að skrá fyrirtækin á markað.

Vilhjálmur Bjarnason, framkvæmdastjóri Samtaka fjárfesta, segir ríkið vera komið út yfir öll eðlileg mörk. „Eignaskattur af þessu tagi er ekki til í kennslubókum eða löndunum í kringum okkur. Og staðreyndin er sú að það eru til þó nokkuð margir einstaklingar sem hafa ekki tekjur þótt þeir eigi eignirnar.“

Nánar er fjallað um auðlegðarskattinn og áhrif hans í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.