Lúxusferðamenn sem sækja til landsins hefur fækkað talsvert vegna Covid-veirunnar en þeir dvelja lengur og eyða meira að sögn Þórunnar Sigurðardóttur, framkvæmdastóra Heli Austria Iceland. Umferð einkaflugvéla og snekkja á Íslandi hefur verið meiri heldur en menn höfðu gert ráð fyrir í kjölfar útbreiðslu kórónaveirunnar samkvæmt Þórunni.

„Eftir Covid gerðum við ráð fyrir ansi þungum róðri en við erum á nokkuð góðu róli. Það hafa verið talsvert færri viðskiptavinir en þeir dvelja lengur og setja klárlega meiri pening í upplifanir,“ segir Þórunn. Meðaldvalartími þessara ferðamanna hefur verið í kringum fimm til sjö dagar á undanförnum mánuðum.

„Þetta kemur flestum á óvart en við vissum þó að þetta yrði fyrsti kúnninn til baka. Það er alltaf einhver umferð af einkaþotum, örugglega talsvert meiri en fólk gerir sér grein fyrir. Það eru margir sem millilenda hérna og nýta sér stoppið til að gera eitthvað. Í gegnum Covid var mikið um að vélar héldu áfram að millilenda hér en gestirnir fóru ekkert út.“

Læknar með í för

Viðskiptavinir fyrirtækisins hafa verið mjög ánægðir með skimun á flugvöllum, að sögn Þórunnar.„Þeir sem hafa komið til okkar telja þetta vera mikið öryggi. Margir hverjir hafa með sér lækna í för og eru búnir að halda sér sérstaklega frá öðru fólki. Þetta fólk er að koma úr stífari einangrun heldur en að við höfum verið í og þau vilja helst vera prívat.“

Þórunn hrósar heilbrigðisyfirvöldum fyrir hvernig staðið hefur verið að skimunum. „Þau hafa verið að bjóða upp á góða þjónustu þar sem hjúkrunarfræðingar hafa farið um borð í einkaþoturnar til að taka sýni. Þetta hefur allt gengið ótrúlega vel og hratt fyrir sig.“

Þyrluskíðin vinsæl í sumar

„Þyrluskíðin hafa verið mjög vinsæl hjá okkur. Það hefur verið gott færi á skíðum fyrir norðan og  gestir eru að nýta sér þetta grimmt,“ segir Þórunn og bætir við að þau gerðu ráð fyrir að vinna fram á miðnætti í gær og á þriðjudag.

Auk þyrluskíða býður fyrirtækið einnig upp á verkflug og myndaflug. „Við höfum séð um flutninga á milli staða fyrir margar af þeim snekkjum sem komið hafa til landsins.“

Fyrirtækið sá til að mynda að koma gestum 68 metra lúxussnekkjunnar Ragnars til og frá landi nýverið. „Þá var verið að mynda skipið í bak og fyrir og þau notuðu þyrlu til þess hoppa í land og til baka.“

Leiðandi á sviði sjúkraflugs

Heli Austria er austurrískt fyrirtæki sem hefur verið starfandi í rúm 38 ár en fyrirtækið hóf starfsemi á Íslandi í byrjun síðasta árs. Þórunn segir að viðskiptasambönd móðurfyrirtækisins hafi komið að góðum notum á síðustu mánuðum þar sem traust og öryggi fylgi nafninu.

Að sögn Þórunnar, hefur hið erlenda félag verið leiðandi á sviði sjúkraflugs í Evrópu og stefnt er að því að kom uppi þeirri starfsemi á Íslandi. „Þetta er eitthvað sem við höfum gríðarlegan áhuga á að byggja upp hér á landi líka. Við erum búin að vera í viðræðum við ríkið og þetta kemur vel til greina þegar núverandi ástand vegna Covid-veirunnar batnar.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Greint er frá rekstri Icelandair á fyrri hluta ársins ásamt því að ræða við fyrrum forstjóra félagsins um stöðu þess.
  • Hlutafé Selbakka, stærsta fjósabú landsins, var aukið um 800 milljónir króna fyrr í sumar. Doktor í auðlindahagfræði telur rekstur kúabúa mjög misjafnan.
  • Dr. Dýri er nýtt app sem geymir heilsufarsbækur dýra með rafrænum hætti.
  • Veitingamaður og hóteleigandi á Austurlandi ræðir stöðuna í geiranum.
  • Umfjöllun um stöðu ferðaþjónustunnar og nýjan risa sem er að verða til í ferðaþjónustunni.
  • Eðalfiskur íhugar að stefna ríkinu vegna ójöfnuðar í tollamálum gagnvart ESB.
  • Sala notaðra bíla hefur aldrei verið meiri hjá Brimborg.