Frjáls verslun gaf nýlega út tölublað um 30 af umsvifamestu erlendu fjárfestunum í íslensku atvinnulífi. Á listanum er meðal annars hvít-rússneski olígarkinn Aleksandr Moshensky. Honum hefur verið lýst sem manninum sem bjó til markað fyrir íslensk loðnuhrogn í Austur-Evrópu. Moshensky hefur lengi verið stórtækur í sölu á íslenskum fiski í gömlu austantjaldsríkjunum. Vegna þessa var hann gerður að að ræðismanni Íslands í Hvíta-Rússlandi, árið 2005 og gegnir hann þeirri stöðu enn. Moshensky á sterk tengsl við Ísland og hefur oft heimsótt land og þjóð.

Hann blandaðist inn í deilur Guðmundar Kristjánssonar og Sigurgeirs Brynjars Kristgeirssonar um Vinnslustöð Vestmanneyja. Guðmundur sakaði Vinnslustöðina um að reka sölufélagið About Fish frá Tortóla. Sigurgeir Brynjar sagði Vinnuslustöðina ekkert eiga í félaginu heldur ætti títtnefndur Moshensky félagið. Hann hafi lengi keypt fisk af Vinnslustöðinni. Þá hefðu Moshensky og eiginkona hans margoft heimsótt Vestmannaeyjar.

Moshensky er bæði stórtækur í vinnslu landbúnaðarafurða og fisks í heimalandinu Hvíta-Rússlandi. Hann er talinn einn nánasti bandamaður Aleksandr Lukashenko, forseta Hvíta-Rússlands. Evrópusambandið er sagt hafa alvarlega íhugað að setja Moshensky á svartan lista yfir þá sem beittir eru viðskiptaþvingunum til að reyna að hafa áhrif á stefnu Lukashenko, sér í lagi í mannréttindamálum.

Nánar má lesa um erlenda auðmenn á Íslandi í nýju tímariti Frjálsrar verslunar. Hægt er að kaupa eintak af tímaritinu hér eða gerast áskrifandi hér .