Auðmenn eru með allavega 21 billjón dollara í felum í skattaparadísum. Það jafngildir um 2.623 billjónum íslenskra króna. Þetta kemur fram í skýrslu James Henry, fyrrum aðalhagfræðings ráðgjafafyrirtækisins McKinsey sem unnin var fyrir samtök um skattalegt réttlæti (e. Tax Justice Network). Í skýrslunni, sem BBC greinir frá í frétt sinni, er upphæðin sem um ræðir lágmark og varfærnislegt mat samkvæmt höfundinum. Upphæðin gæti verið allt að 32 billjónir dollara. Billjón dollarar eru 1.000 milljarðar dollara.

Auðmenn víða um heim voru með yfir 21 billjón dollara í skattaparadísum í lok árs 2010. Það jafngildir samanlagðri landsframleiðslu bæði bandaríska og japanska hagkerfisins. Skýrslan var unnin út frá gögnum frá Alþjóðagreiðslubankanum, IMF, Heimsbankanum og ríkisstjórnum einstakra ríkja. Eingöngu var litið til auðæfra á borð við innstæður í bönkum og fjárfestingareikninga en ekki eignir á borð við fasteignir og snekkjur.

Einnig kemur fram í skýrslunni að minna en 100.000 manns eigi um 9,8 billjónir dollara af eignum á aflandsreiknum. Þrír stærstu bankarnir í viðskiptum með eignir á aflandsreikningum eru UBS, Credit Suisse og Goldman Sachs.