Á meðal 30 af umsvifamestu erlendu auðmönnunum sem komið hafa að íslensku atvinnulífi og fjallað er um í nýjasta tölublaði Frjálsrar verslunar eru ríkasti karl og ríkustu konur Noregs. Þau eiga það sameiginlegt að vera á þrítugsaldri og hafa erft viðskiptaveldi fjölskyldunnar þar sem meðal annars má finna stóran hlutur í íslensku fiskeldi. Feður þeirra halda þó enn um stjórnartaumana í fjölskyldufyrirtækjunum.

Fyrirsætan sem er stærsti hluthafi Arnarlax

Arnarlax, stærsta laxeldisfélag landsins, er að meirihluta í eigu norska laxeldisrisans Salmar, stærsta laxeldisfélags heims. SalMar var stofnað árið 1991 af Gustav Witzøe sem stýrir félaginu enn þann dag í dag. Hann gaf syni sínum, Gustav Magnar Witzøe, 47% eignarhlut í félaginu.

Gustav Magnar, sem er 27 ára, er einn yngsti milljarðamæringur heims, ef marka má auðmannalista Forbes. Þá er hann ríkasti maður Noregs samkvæmt nýjum lista sem e24 birti, byggt á upplýsingum frá skattayfirvöldum þar í landi.

Sjá einnig: Erlendir auðmenn á Íslandi

19 ára fékk hann tveggja vikna fangelsisdóm eftir að hafa ekið á 116 kílómetra hraða þar sem hámarkshraðinn var 60 kílómetrar á klukkustund. Á meðan faðir hans heldur um stjórnartaumana hjá Salmar hefur Gustav yngri fjárfest í fasteignum og nýsköpunarfyrirtækjum í Noregi. Þá hefur hann reynt fyrir sér sem fyrirsæta þar sem hann er með samning hjá umboðsskrifstofunni Next Models og er duglegur að setja inn myndir af sér á Instagram þar sem hann er með 110 þúsund fylgjendur.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Andresen fjölskyldan áhrifamikil í Noregi frá því á 19. öld

Norsku systurnar Alexandra og Katharina Andresen komust í heimspressuna árið 2016 þegar þær urðu þær yngstu áauðmannalista Forbes. Þær eru 24 og 25 ára í dag en árið 2007 fengu þær hvor um sig 42% eignarhlut í fjárfestingafélagi fjölskyldunnar, Ferd AS, frá föður þeirra, Johan H. Andresen.

Systurnar eru ríkustu konur Noregs. Auður hvorrar um sig er metinn á 1,4 milljarða dollara, eða samanlagt um 2,8 milljarða dollara, um 380 milljarða króna. Ferd á fjölda iðnfyrirtækja, stórt fasteignasafn og norska útvistarvörumerkið Swix. Faðir systranna, Johan, stýrir rekstrinum enn í dag.

Sjá einnig: Hvítrússneski fiskikóngurinn

Ferd er meðal annars stærsti hluthafi í Benchmark Holdings, sem á laxa- og hrognkelsaseiðframleiðandann Stofnfisk hér á landi. Stofnfiskur hefur vaxið hratt undanfarin ár. Velta félagsins tvöfaldaðist milli áranna 2017 og 2018 og veltir félagið nú ríflega 3 milljörðum króna á ári. Hagnaður Stofnfisks í fyrra nam tæplega 1,2 milljörðum króna í fyrra.

Andresen-fjölskyldan hefur verið áhrifamikil í norsku viðskiptalífi og stjórnmálum frá því á 19. öld. Auður fjölskyldunnar byggir ekki síst á tóbaksframleiðandanum Tiedemanns Tobakksfabrikk sem komst í eigu fjölskyldunnar árið 1849. Fyrirtækið var með yfirburðastöðu á norskum tóbaksmarkaði. Fjölskyldan seldi stærstan hlut sinn í fyrirtækinu árið 1998 og að fullu árið 2005.

Alexandra er landsliðskona í reiðmennsku en Katharina er sögð hafa sýnt rekstri fjárfestingafélags fjölskyldunnar meiri áhuga og hefur meðal annars unnið við markaðsstörf fyrir eitt af fjölskyldufyrirtækjunum.

Nánar má lesa um erlenda auðmenn á Íslandi í nýju tímariti Frjálsrar verslunar. Hægt er að kaupa eintak af tímaritinu hér eða gerast áskrifandi hér .