Starf mitt hjá samtökum iðnaðarins felur í sér að stuðla að framþróun í íslensku atvinnulífi og iðnaði. Ég hef umsjón með nokkrum félögum innan SI, á borð við Samtök upplýsingafyrirtækja, Samtök leikjaframleið­ enda, Samtök gagnavera og Samtök kvikmyndaframleiðenda; ég þjónusta þessi félög og sinni þeirra hagsmunagæslu. Starfið felur í sér náið samstarf við stjórnendur í íslensku atvinnulífi, sem og stjórnvöld og erlenda samstarfsaðila.Til að stuðla að framþróun er mikilvægt að ólíkir aðilar skilji sameiginlega hagsmuni og áskoranir,“ segir Elínrós Líndal, viðskiptastjóri hugverkaiðnaðar hjá Samtökum iðnaðarins í viðtali í sérblaði Viðskiptablaðsins Áhrifakonum.

„Hugverkaiðnaðurinn er í mikilli sókn og vaxtatækifæri innan hans eru mikil. Það er þó mikilvægt að geta þess að hugverkaiðnaðurinn er í stöðugri varnarbaráttu líka. Fyrirtækin eru mörg hver í útflutningi og lokað hagkerfi gerir þeim erfitt fyrir. Það er mikil ásókn erlendra fjárfesta að fá þessi fyrirtæki til sín. Svo áskoranir okkar felast í því að halda fyrirtækjunum í landinu. Að búa yfir færu fólki er lykilatriði í þessum greinum, þess vegna þurfum við að stuðla að því að hafa vel menntað fólk á sértækum sviðum. En hér má einnig nefna hæfa iðn- og tæknimenntaða einstaklinga.“

Aðspurð að lokum um það dýrmætasta sem hún hefur lært á ferlinum nefnir Elínrós auðmýkt. „Með réttu hugarfari er hægt að ná miklum árangri en oft og tíðum getur maður flækst mikið fyrir sjálfum sér. Ef maður nær að taka persónu sína út úr verkefnum og horfa á stóru myndina þá getur maður alltaf fundið leiðir til að gera betur og séð hluti sem maður gerir vel. Góður húmor er að mínu mati besti vinur auð­mýktarinnar og með skýra sýn og sterk gildi má alltaf finna leiðir til framþróunar. Með starfi mínu hjá Samtökum iðnaðarins fæ ég tækifæri til að læra, breyta og bæta. Að starfa með fjölbreyttum hópi sumum af okkar bestu stjórnendum eru mikil forréttindi og mun án efa stækka verkfærakistu mína og auka þekkingu mína á stjórnun til muna.“