Þrjú hundruð auðugastu einstaklingar heims töpuðu sem svarar til 44,4 milljarða dala, jafnvirði tæpra 5.000 milljarða íslenskra króna, á gengislækkun á hlutabréfamörkuðum á heimsvísu í gær. Gengi hlutabréfa lækkaði almennt á mörkuðum heimshorna á milli í gær eftir að rússneski herinn réðst inn á Krímskaga og gerði sig líklegan til vopnaðra átaka í Úkraínu. Í kjölfarið lækkaði jafnframt gengi rúblunnar um 1,5% niður í lægsta gengið sem rúblan hefur nokkru sinni verið á.

Bloomberg-fréttaveitan , sem heldur úti daglegri samantekt á auðugasta fólki í heimi, segist þá sem töpuðu mestu hafa verið aukýfingana Gennady Timsjenkó og Leoníd Mikhelson en þeir horfðu upp á jafnvirði 3,2 milljarða dala, um 360 milljarða íslenskra króna, gufa upp þegar hlutabréf í rússneska gasfyrirtækinu OAO Novatek féll um tæp 18% í fyrra. Félagarnir eiga næstum 50% hlut í fyrirtækinu.

Nágrannar þeirra Timsjenkó og Mikhelson og félagar í milljóneraklúbbnum í Úkraínu töpuðu sömuleiðis háum fjárhæðum. Vladimír Liín, stjórnarformaður rússneska stálfyrirtækisins Novolipetsk tapaði 1,2 milljörðum dala þegar gengi hlutabréfa fyrirtækisins féll um 7,1%.