Flemming Østergaard, einn af auðugustu mönnum Danmerkur sem betur er þekktur sem Don Ø, er með skattayfirvöld þar í landi á bakinu en hann er sakaður um að hafa ekki greitt samtals 26 milljónir danskra króna, jafnvirði um 600 milljóna íslenskra króna á núvirði, í skatt á árunum 2003 til 2009. Um er að ræða vantaldar fjármagnstekjur auk þess sem honum er gefið að sök að hafa greitt tekjuskatt sem lögaðili en ekki sem einstaklingur af bónusgreiðslum þegar hann stýrði danska knattspyrnuliðinu FCK.

Í danska blaðinu Ekstra Bladet er fjallað um skattamál Don Ø. Þar er m.a. bent á að tekjur hans sem gefnar hafi verið upp til skatts hafi verið greiðslur til ráðgjafafyrirtækis í hans eigu. Félagið var með einn kúnna á þeim tíma sem skattamálin náðu yfir. Viðskiptavinurinn var Parken í Kaupmannahöfn, þjóðarleikvangur Dana. Leikvangurinn var á sama tíma í eigu Don Ø.

Daninn auðugi átti jafnframt Billetlugen, eitt umsvifamesta miðasölufyrirtæki Danmerkur. Miði og Nýsir keyptu saman 90% hlut í Billetlugen í febrúar árið 2007.