Íslenska útgerðarfélagið Samherji hefur átt í viðræðum um að selja útgerð sína í Afríku, Kötlu Seafood. Þetta staðfestir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, við DV . Þorsteinn vill ekki greina frá því hver staðan er á viðræðunum um söluna á útgerðinni.

Þorsteinn segir aðspurður að áhugasamur aðili, rússneskur auðmaður, hafi sett sig í samband við íslenska útgerðarfélagið og falast eftir útgerðinni. „Við erum ekki að reyna að selja. […] Starfsfólk hjá þessu fyrirtæki hefur hins vegar verið upplýst um að haft hafi verið samband við framkvæmdastjóra félagsins vegna mögulegra kaupa.“ Með orðum sínum á Þorsteinn Már við að starfsmenn Samherja í Afríku hafi verið látnir vita af því að viðræður við hugsanlegan kaupanda standi yfir.

Samherji á og rekur átta togara sem veiða við strendur Vestur-Afríku og gerðir eru út af dótturfyrirtæki Samherja á Kanaríeyjum, Kötlu Seafood. Samherji keypti fyrirtækið árið 2007 fyrir um 12 milljarða króna af Sjóla í Hafnarfirði.