Hlutfall verslana sem standa auðar í Bretlandi heldur áfram að hækka og er nú komið í 14,5%, þ.e. ein af hverjum sjö verslunum stendur nú auð. Hlutfallið jókst um 0,4 prósentustig á síðustu þremur mánuðum og um heil tvö prósent frá sama tíma í fyrra þegar hlutfallið var 12,4%.

„Það kemur ekkert á að fjöldi lokaðra verslana í Bretlandi heldur áfram að hækka eftir að smásalar hafa þurft að bregðast við innleiðingu og afléttingu útgöngubanna á víxl á síðastliðnu ári,“ segir Helen Dickenson, forstjóri bresku smásölusamtakanna BRC.

Verslunarmiðstöðvar, sem hýsa stórt hlutfall tískuverslana, hafa orðið verst fyrir barðinu, að því er kemur fram í frétt Skynews . Hlutfall auðra búða var 19,4% í verslunarmiðstöðvum en til samanburðar var hlutfallið 11,5% í verslunarkjörnum (e. retail parks).

Hlutfall lokaðra búða var einnig ólíkt eftir landsvæðum en í London var það 11,1% á síðasta ársfjórðungi. Á eftir höfuðborginni voru Suðaustur-hornið og Austur-England með lægstu hlutföllin. Norðaustur England kom verst út en þar var ein af hverjum fimm verslunum lokaðar eða 20,6%. Wales og Norðvestur-England voru með næsthæstu hlutföllin.