ORF Líftækni hefur ráðið Auði Árnadóttur til starfa sem fjármálastjóra og Júlíus B. Kristinsson færist úr starfi fjármálastjóra yfir í starf framkvæmdastjóra viðskiptaþróunarsviðs.

Auður Árnadóttir er með MBA og BSc gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands en hún hefur starfað sem fjármálastjóri í yfir sextán ár, bæði á Íslandi og í Bretlandi, og hefur bæði reynslu úr alþjóðaumhverfi og innan ólíkra starfsgreina. Síðastliðið ár starfaði Auður hjá Advania Data Centers, þar sem hún leiddi aðskilnað reksturs gagnavera frá Advania Ísland.

2011-2018 starfaði Auður hjá Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúsi, eða frá opnunarári hússins og á meðan rekstri var komið á fót, starfsemin fjármögnuð og skipulögð. Þar áður var Auður fjármálastjóri Geysis Green Energy, sem var með verkefnafélög og samstarfsverkefni víða um heim, og fjármálastjóri samstæðu AT Toolcentre Ltd í Bretlandi.

Júlíus B. Kristinsson færist úr starfi fjármálastjóra yfir í starf framkvæmdastjóra viðskiptaþróunarsviðs hjá ORF Líftækni. Júlíus er einn af stofnendum ORF Líftækni og hefur séð um fjármál þess frá stofnun ásamt ýmsum öðrum viðfangsefnum. Hann var um tíma rannsóknastjóri Rannsóknastofnunar Landbúnaðarins og þar áður framkvæmdastjóri Silfurlax hf. og Silfurgen ehf.

Júlíus hefur tekið þátt í stofnun og uppbyggingu sprotafyrirtækja í rúmlega 30 ár. Hann var á sínum tíma stjórnarmaður í Landssambandi Fiskeldis-og Hafbeitarstöðva (nú Landssamband Fiskeldisstöðva) og síðar í stjórn Samtaka Sprotafyrirtækja og hefur unnið að ýmsum öðrum félagsmálum er tengjast rannsóknum og nýsköpun.

Júlíus lauk doktorsnámi frá University of New Brunswick í Kanada í líffræði með áherslu á lífeðlisfræði fiska og lauk einnig námi með starfi á sviði viðskipta- og rekstrarfræði við EHÍ.

Með um 70 starfsmenn

ORF Líftækni starfar í plöntulíftækni en það framleiðir sérvirk prótein sem notuð eru sem innihaldsefni í BIOEFFECT húðvörur fyrirtækisins, seld til læknisfræðilegra rannsókna og nýtt í önnur þróunarverkefni fyrirtækisins.

ORF hefur þróað tækni til að framleiða slík prótein í byggi, en aðferðin er afrakstur tveggja áratuga vísinda- og þróunarstarfs. BIOEFFECT vörurnar hafa fengið fjölda alþjóðlegra viðurkenninga fyrir virkni og gæði og eru seldar um allan heim. ORF líftækni hefur vaxið hratt á undanförnum árum og hjá fyrirtækinu starfa nú um 70 manns.