Í ár eru liðin 20 ár síðan Björgólfur Thor Björgólfsson, Björgólfur Guðmundsson og Magnús Þorsteinsson seldu Bravo bjórverksmiðjuna í Sankti Pétursborg fyrir 41 milljarð króna, eða 99 milljarða á núverandi verðlagi. Salan í Rússlandi var þá ein stærstu viðskipti í sögu íslensks viðskiptalífs og lagði grunninn að velsæld Björgólfs Thors sem hefur verið ríkasti Íslendingurinn frá árinu 2005. Það ár fór Björgólfur inn á lista viðskiptatímaritsins Forbes yfir ríkustu menn heims.

Fjárfestu víða eftir söluna

Þeir Björgólfur, Björgólfur Thor og Magnús komu inn í íslenskt viðskiptalíf af miklum krafti. Þeir keyptu saman 44,3% hlut í Landsbankanum sama ár og salan á Bravo fór fram. Eignarhaldið var í gegnum Samson eignarhaldsfélag og áttu feðgarnir 42,5% hvor, en Magnús átti 15,0%.

Þeir keyptu hluti í fjölmörgum öðrum félögum.  Björgólfur Guðmundsson keypti meirihluta í útgáfufélaginu Eddu útgáfu árið 2002. Magnús keypti meirihluta í flugfélaginu Atlanta á árinu 2002 ásamt hópi fjárfesta. Árið 2003 keypti Samson Global Holdings Ltd., í eigu þremenninganna, hlut í Straumi fjárfestingarfélagi af Landsbankanum. Á sama tíma keypti Landsbankinn hlut af öðrum aðilum og átti eftir viðskiptin 20% hlut í félaginu. Stærsta eign félagsins var Eimskipafélag Íslands.

Í 1.238 sæti hjá Forbes

Í dag er Björgólfur Thor í 1.238 sæti Forbes listans yfir ríkustu menn í heimi og eru eignirnar metnar á 2,5 milljarða Bandaríkjadala.

Hann komst fyrst inn á listann árið 2005, féll af honum árið 2010 en komst aftur inn á hann 2015 og hefur verið þar síðan. Hann fór hæst í 249. sæti listans árið 2007 og voru eignir hans metnar á 3,5 milljarða dala af tímaritinu.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.