*

föstudagur, 13. desember 2019
Innlent 19. nóvember 2019 16:59

Auður býður 3,5% innlánsvexti

Auður býður upp á 3,5% innlánsvexti á bundnar innstæður til þriggja mánaða á nýjum sparireikningi.

Ritstjórn
Ólöf Jónsdóttir er forstöðumaður Auðar sem er fjármálaþjónusta Kviku banka.
Aðsend mynd

Auður býður upp á bundna reikninga með 3,5% innlánsvöxtum. Reikningurinn er ný viðbót við fjármálaþjónustu Kviku sem síðastliðinn mars opnaði fyrir óbundna reikninga. 

„Samkeppnin á íslenskum bankamarkaði hefur ekki verið mikil síðustu ár. Viðtökurnar við óbundnu reikningum Auðar fóru fram úr okkar björtustu vonum og gáfu okkur byr undir báða vængi við að leita nýrra leiða og lausna fyrir viðskiptavini okkar, bæði núverandi og verðandi,“ er haft eftir Ólöfu Jónsdóttir, forstöðumanni Auðar, í tilkynningu frá bankanum. 

Ólöf segir jafnframt að lítilli yfirbygging bankaþjónustu Kviku geri það að verkum að bankinn geti boðið upp á hærri vexti en gengur og gerist.

Nýju reikningarnir gefi þeim sem vilja fá betri vexti kost á því gegn því að binda peningana sína í þrjá mánuði. Vextirnir á þeim reikningum séu nú 3,5% og taki mið af vaxtarstigi á fjármálamarkaði á hverjum tíma.

„Reikningarnir er óverðtryggðir fastvaxtareikningar sem þýðir að þeir vextir sem eru í gildi á stofndegi reiknings gilda út allan binditímann. Vextir eru greiddir út um hver mánaðamót yfir binditíma og millifærðir á sparnaðarreikning viðskiptavina hjá Auði og því lausir til úttektar á greiðsludegi,“ segir í tilkynningunni. 

Til þess að stofna sparnaðarreikning hjá Auði þarf rafræn skilríki og 250 þúsund króna innstæðu bundna til þriggja mánaða. 

Stikkorð: Auður innlánsvextir