Tindar Verðbréf hafa sagt upp kauphallaraðild sinni að hlutabréfa- og skuldabréfamörkuðum NASDAQ OMX Iceland. Þetta kemur fram í tilkynningu í Kauphöllinni. Tekur uppsögnin gildi frá og með miðvikudeginum 11. janúar.

Kristín Pétursdóttir
Kristín Pétursdóttir
© Haraldur Jónasson (VB MYND/HARI)
Samhliða hefur Kauphöllinn samþykkt umsókn Auðar Capital um aðild að sömu mörkuðum. Munu miðlarar Auðar því eiga viðskipti í Kauphöllinni undir auðkenninu AUD frá og með morgundeginum. Kristín Pétursdóttir er forstjóri Auðar Capital.

Stjórnir Auðar Capital og Tinda verðbréfa samþykktu í nóvember 2011 að sameina starfsemi fyrirtækjanna undir merkjum Auðar Capital. Samhliða tók Vilhjálmur Þorsteinsson við sem stjórnarformaður sameinaðs félags.

Fjármálaeftirlitið samþykkti í dag, þriðjudag, samruna Tinda Verðbréfa við Auði Capital hf. á grundvelli laga um fjármálafyrirtæki. Auður tekur við öllum réttindum og skyldum Tinda og verða félögin sameinuð undir nafni Auðar Capital hf.