Verðbréfafyrirtækið Auður Capital undirbýr nú stofnun nýs framtakssjóðs (e. private equity fund) sem mun bera nafnið Edda. Fyrir rekur Auður annan slíkan sjóð, Auði 1.

Hinn nýi sjóður er áætlaður 5-7 milljarðar að stærð og að sögn Kristínar Pétursdóttur, forstjóra Auðar Capital, er stefnt að því að ljúka fjármögnun hans nú í sumar.

„Þrátt fyrir að fjárfestingartækifærin séu af skornum skammti í dag þá eru áhugaverð tækfæri að finna meðal óskráðra fyrirtækja,“ segir Kristín í samtali við Viðskiptablaðið.

„Það er að rofa til hjá mörgum fyrirtækjum, mörg þeirra hafa lokið fjárhagslegri endurskipulagningu og geta nú horft fram á veginn. Það eru að skapast aukin tækifæri til að fjárfesta í óskráðum og góðum rekstrarfélögum.“

Aðspurð segir Kristín að Auður Capital eigi nú þegar í viðræðum við fjölmörg fyrirtæki um að koma að rekstri þeirra. Hún vill ekki upplýsa hvaða fyrirtæki það eru, en segir að unnið hafi verið að fjárfestingarverkefnunum í nokkurn tíma.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.