Afkoma Auðar Capital var á síðasta ári neikvæð um 65 milljónir króna, sbr. við 76 milljóna króna tap árið 2010. Samkvæmt ársreikningi félagsins nemur eigið fé fyrirtækisins um einum milljarði króna og eiginfjárhlutfallið rúmlega 57%.

Tekjur Auðar drógust saman um tæpar 67 milljónir króna á milli ára en á sama tíma jókst rekstrarkostnaður um tæpar 19 milljónir. Rekstrartap Auðar á árinu nam tæpum 152 milljónum króna, sbr. við 76 milljónir króna árið áður. Fyrirtækið var skuldlaust í lok árs 2011.

Rekstur Auðar Capital var undir áætlunum á fyrri hluta ársins. Að sögn Kristínar Pétursdóttur, forstjóra Auðar, var þó brugðist við um mitt ár með hagræðingu í rekstri og breyttum áherslum, sem síðan hafi skilað hagnaði á seinni hluta ársins. Þá sameinuðust Auður Capital og verðbréfafyrirtækið Tindar í lok síðasta árs.

Nánar er fjallað um rekstur Auðar Capital og nýjan framtakssjóð sem fyrirtækið hyggst setja á fót í sumar, í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.