Auður Capital tapaði 76 milljónum króna á síðasta ári, samkvæmt ársreikningi félagsins sem samþykktur var á aðalfundi 27. apríl sl. Í tilkynningu frá félaginu segir að eiginfjárstaða fyrirtækisins sé sem fyrr sterk og nemur eigið fé rúmum milljarði króna. Félagið er skuldlaust og CAD-hlutfallið er 88,4%.

„Árið 2010 einkenndist af auknum umsvifum og fjárfestingu í uppbyggingu starfseminnar. Verulegur vöxtur varð á eignum í stýringu, sem hækkuðu úr 17 milljörðum í 30 milljarða í árslok og þóknanatekjur jukust um 70% á milli ára. Þrátt fyrir takmarkað úrval fjárfestingarkosta náðist afar góð ávöxtun á eignir í stýringu. AUÐUR I, fagfjárfestasjóður, fjárfesti í hlutafé í sjö fyrirtækjum á árinu. Fyrirtækjaráðgjöf kom að ráðgjöf, fjárhagslegri endurskipulagningu og verðmati á þriðja tug fyrirtækja og fasteignaráðgjöf var sett á laggirnar,“ segir í tilkynningu.

„Ég er á heildina litið sátt við árangur ársins“, segir Kristín Pétursdóttir, forstjóri Auðar, í tilkynningunni. „Þetta er annað heila starfsár okkar og frá upphafi gerðum við stjórnendur og hluthafar félagsins ráð fyrir því að uppbygging tæki bæði tíma og kallaði á fjárfestingu. Við höfum lagt mikla áherslu á að byggja upp tekjustofna til framtíðar og það hefur tekist vel. Viðskiptavinum hefur fjölgað jafnt og þétt og eignir í stýringu vaxið að sama skapi. Við njótum trausts ánægðra viðskiptavina sem við teljum skipta sköpum. Ennfremur fjárfesti AUÐUR I í áhugaverðum fyrirtækjum á árinu sem við teljum að muni skila okkur tekjum til lengri tíma litið.“

Á aðalfundinum var stjórn félagsins kjörin. Stjórnina skipa: Halla Tómasdóttir, stjórnarformaður, Guðbjörg Edda Eggertsdóttir, Vilhjálmur Þorsteinsson, David Adams og Þóranna Jónsdóttir sem kemur ný inn í stjórn.