Auður Capital
Auður Capital
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)

Auður I, sjóður á vegum verðbréfafyrirtækisins Auðar Capital, vill selja heildsöluna Yggdrasil. Auður I fjárfestingarsjóður keypti 100% hlut í félögunum Yggdrasil og Veru af einkafjármagnssjóðnum Arev NI í júní árið 2010.

Yggdrasill sinnir heildsölu og smásöluverslun á lífrænt ræktuðum og heilsusamlegum vörum. Meðal þekktra vörumerkja sem Yggdrasill flytur inn eru Rapunzel, Dr. Hauschka snyrtivörur frá Þýskalandi, Clipper te- og kaffivörur frá Bretlandi, Holle barnamatur frá Sviss og nokkur vörumerki frá hollenska fyrirtækinu Natudis sem er eitt stærsta lífræna fyrirtækið í Hollandi og Belgíu. Þá framleiðir og selur fyrirtækið lífræna matvöru undir vörumerkinu Himnesk hollusta.

Í auglýsingu frá fyrirtækjaráðgjöf Auðar Capital sem birt er í Viðskiptablaðinu í dag kemur fram að söluferlið sé öllum opið sem geti sýnt fram á viðeigandi þekkingu og eiginfjárstöðu umfram 300 milljónir króna. Seljandi áskilur sér rétt til að takmarka aðilum aðgang að söluferlinu, t.d. vegna samkeppnissjónarmiða eða ef fyrir hendi eru einhverjar lagalegar takmarkanir.

Tímafrestur til að skila inn tilboðum stendur fram á mánudaginn 11. nóvember næstkomandi.