Auðæfi Davíðs Helgasonar, meðstofnanda Unity Software, eru komin yfir 2 milljarða dala, samkvæmt rauntímalista Forbes, eftir fjórðungshækkun á hlutabréfaverði Unity í vikunni. Virði eignarhlutar Davíðs í hugbúnaðarfyrirtækinu hefur hækkað um meira en 400 milljónir dala eða um 54 milljarða króna í vikunni sem er meira en markaðsvirði átta af tuttugu félögum sem skráð eru á aðalmarkað íslensku Kauphallarinnar.

Davíð er nú farinn að nálgast Björgólf Thor Björgólfsson sem ríkasti maður Íslands en sá síðarnefndi er metinn á 2,2 milljarða dala. Gera má þó ráð fyrir að rauntímalistinn uppfæri auðæfi Björgólfs, sem hefur fjárfest í fjölda óskráðra fyrirtækja, ekki í sama mæli. Samkvæmt listanum eru þeir báðir meðal tvö þúsund ríkustu einstaklingum heims.

Forbes gefur auðmannalistann formlega út einu sinni á ári og síðasta listi var reiknaður út frá 5. mars 2021. Þá var auður Davíðs áætlaður um einn milljarður dala og því má ætla að auðæfi hans hafa tvöfaldast frá þeim tíma samhliða hækkun á gengi Unity.

Viðskiptablaðið hefur fjallað um tæplega 6,2 milljarða króna sölu Davíðs á hlutabréfum Unity. Hann seldi hlutinn í nokkrum lotum, fyrst í maí og síðast í september, í gegnum félagið OTEE 2020 AoS sem hann átti með Joachim Ante, meðstofnanda Unity. Davíð á þó áfram 3,44% hlut í Unity sem er um 249 milljarðar króna að markaðsvirði í dag.

Unity hækkað um 270% frá skráningu

Hlutabréf Unity hafa hækkað um meira en fjórðung í vikunni og standa nú í 194 dölum á hlut þegar fréttin er skrifuð. Til samanburðar var útboðsgengi félagsins 52 dalir við skráningu á markað í september 2020.

Unity tilkynnti í byrjun vikunnar um 1,6 milljarða dala kaup á tæknibrellufyrirtækinu WETA Digital sem Peter Jackson, leikstjóri Hringadróttinsmyndanna, stofnaði.

Á mánudaginn birti hugbúnaðarfyrirtækið einnig uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung þar sem fram kom að tekjur hafi vaxið um 43% á milli ára og numið 286,3 milljónum dala á fjórðungnum. Unity tapaði 115 milljónir dala á fjórðungnum samanborið við 144 milljónir á sama tíma árið áður.