Seljanleiki er einn af stærstu áhættuþáttunum sem lífeyrissjóðir þurfa að huga að við áhættustýringu. Þannig gerir smæð markaðar á íslandi það að verkum að seljanleikinn verður minni og gerir stærstu fjárfestum erfiðara um vik að hreyfa sig.

Þetta sagði Auður Finnbogadóttir, framkv.stjóri Lífeyrissjóðs verkfræðinga á fundi Deloitte, Kauphallarinnar og Viðskiptaráðs um virkan hlutabréfamarkað sem nú stendur yfir í Turninum í Kópavogi.

Auður sagði að virk verðbréfavakt væri nauðsynleg til að gefa rétta mynd af markaðnum. Hún sagðist oft verða vör við illskiljanlegar og óeðlilegar hreyfingar á markaði. Að hennar mati hafi markaðsaðilar oft reynt að hreyfa við markaðnum án þess að tilefni væri til, einfaldlega til að sýna að markaðurinn væri „virkur“. Hún sagði að betra væri að hafa „daufan“ en stöðugan markað frekar en virkan og óstöðugan markað.

Í framhaldi af þessu sagði Auður að freistnivandi væri mikið áhyggjuefni fyrir fjárfesta. Til dæmis geti kjör stjórnenda, sem tengd eru við verðlagningu skráðra félaga, verið þess valdandi að stjórnendur freistist til að nýta sér sveigjanleika í reikningsskilaaðferðum.

„Þá reynir mikið á stjórnendur að standa fast á sínu,“ sagði Auður og lagði áherslu á að menn leituðu sér aðstoðar fagaðila til að viðhalda góðum reikningsskilaaðferðum.

Loks sagði Auður að virkur verðbréfamarkaður auðveldi fjárfestum að veita útgefendum aðhald þar sem þeir eigi möguleika á því að selja bréfin sín á markaði ef þeir eru ósáttir við framgang fjárfestingarinnar.

Auður fékk fyrirspurn eftir fyrirlestur sinn þar sem hún var spurð hvort hún teldi lífeyrissjóði almennt ætla að verða gagnrýnni fjárfesta en þeir hafi áður verið. Hún svaraði því játandi, þ.e. að hún teldi þróunina vera þannig að forsvarsmenn lífeyrissjóða myndu horfa á markaðinn með gagnrýnni augum en áður.