*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 10. nóvember 2011 10:33

Auður kaupir Tinda verðbréf

Auður Capital og Tindar verðbréf sameinast undir merkjum Auðar. Sameiningin er háð samþykki Fjármálaeftirlitsins.

Ritstjórn
Kristín Pétursdóttir er forstjóri Auðar Capital.
Haraldur Jónasson

Stjórnir Auðar Capital og Tinda verðbréfa hafa komist að samkomulagi um að sameina starfsemi fyrirtækjanna undir merkjum Auðar Capital. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Auði Capital. Tindar verðbréf eru með starfsleyfi frá FME sem verðbréfafyrirtæki. Í tilkynningunni segir að starfsemi Tinda falli sérlega vel að starfsemi Auðar, sem ekki hefur boðið upp á verðbréfamiðlun áður. Sameining félaganna er háð samþykki FME.

„Með kaupunum fær Auður til liðs við sig öflugt teymi  starfsmanna sem mun styrkja stöðu Auðar Capital sem leiðandi verðbréfafyrirtæki.  Verðbréfamiðlun bætist við núverandi þjónustuframboð Auðar Capital auk þess sem kaupin munu styrkja fyrirtækjaráðgjöf  félagsins. Við munum hér eftir sem hingað til leggja áherslu á að veita viðskiptavinum  vandaða og óháða ráðgjöf með áhættumeðvitund og ábyrga arðsemi að leiðarljósi”, segir Kristín Pétursdóttir forstjóri Auðar Capital.

Samhliða mun Vilhjálmur Þorsteinsson taka við sem stjórnarformaður sameinaðs félags. Halla Tómasdóttir sem verið hefur stjórnarformaður Auðar Capital frá stofnun félagsins mun áfram sinna fjárfestingartengdum verkefnum og sitja í stjórnum fyrir hönd félagsins.