Í kjölfar hertari reglna stjórnvalda í Beijing á kínverska tæknigeirann hefur auður ríkustu tæknijöfra landsins fallið um 87 milljarða dala, eða um 11 þúsund milljarða króna, frá byrjun júlímánaðar.

Samanlögð auðæfi 24 kínversku milljarðamæringanna í tækni- og líftækniiðnaðinum hafa lækkað um 16% frá því að farveitan Didi Chuxing fór á markað í Bandaríkjunum í lok júní, samkvæmt Financial Times . Didi lét viðvörun kínverskra stjórnvalda, vegna þjóðaröryggisástæðna, ekki stoppa áformin um skráningu. Stuttu síðar gerðu nokkrar ríkisstofnanir húsleit á skrifstofum Didi og regluverk um skráningar kínverskra fyrirtækja á erlenda markaði var hert.

Nasdaq-vísitala kínverskra hlutabréfa, sem inniheldur 98 stærstu kínversku fyrirtækin sem skráð eru á bandarískum mörkuðum, féll í kjölfarið um 15% á tveimur dögum . Vísitalan hefur lækkað um 42% á síðastu sex mánuðum.

Sjá einnig: Fyrrum kennari tapaði 15 milljörðum

Auður Jack Ma, stofnandi Ant Group, hefur fallið um 330 milljarða íslenskra króna frá því í byrjun júní. Sé horft aftur til nóvember síðastliðins, þegar kínversk stjórnvöld komu í veg fyrir skráningu Ant Group, þá hafa auðæfi Ma lækkað um 13 milljarða dala, eða um 1.650 milljarða króna. Auður hans er í dag metinn á rétt undir 50 milljarða dala.

Það er þó Colin Huang, stofnandi landbúnaðartæknifyrirtækisins Pinduoduo, sem hefur orðið verst fyrir aðgerðum kínverskra stjórnvalda en auður hans hefur lækkað um þriðjung, eða 15,6 milljarða dala frá því í byrjun júní. Pony Na, stofnandi Tencent, hefur einnig tapað 22% af auði sínum eða 12 milljarða dala.