*

laugardagur, 27. nóvember 2021
Fólk 11. maí 2018 09:41

Auður nýr fjármálastjóri Advania Data Centers

Auður Árnadóttir er nýr fjármálastjóri Advania Data Centers, en hún var áður fjármálastjóri Hörpu.

Ritstjórn
Auður Árnadóttir, nýr fjármálastjóri Advania Data Centers
Aðsend mynd

Auður Árnadóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri fjáramálasviðs hjá hátæknifyrirtækinu Advania Data Centers. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Advania Data Centers.

Auður mun bera ábyrgð á fjármálastjórnun, uppgjörum, fjárstýringu, samskiptum við fjárfesta og fjármálastofnanir. Hún mun einnig stýra verkefnum sem tengjast örum vexti fyrirtækisins. Auður var áður fjármálastjóri Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss, fjármálastjóri Geysis Green Energy og þar áður fjármálastjóri Enex.

Advania Data Centers er hátæknifyritæki sem sérhæfir sig í rekstri gagnavera, ofurtölva, blockchain og tölvubúnaðar sem hannaður er til að hámarka reiknigetu. Meðal viðskiptavina eru virtar rannsóknar-, vídinda- og menntastofnanir, bílahönnuðir og -framleiðendur, tækni- og framleiðslufyrirtæki. Höfuðstöðvar félagsins eru á Íslandi en félagið rekur einnig starfsstöðvar í Svíþjóð, Þýskalandi og Bretlandi.

„Það er mjög ánægjulegt að fá til liðs við okkur jafn öfluga manneskju og Auði. Velta félagsins og eftirspurn eftir þjónustunni hefur margfaldast á fáeinum árum og á þessu ári erum við að fjárfesta í uppbyggingu fyrir sex milljarða króna til að mæta eftirspurninni. Til samanburðar má nefna að nýjustu og stærstu fjölveiðiskip landsins kosta um fimm milljarða króna. Við sjáum fram á áframhaldandi vöxt og munum þar njóta góðs af víðtækri reynslu Auðar af fjármálum og rekstri. Ég býð hana hjartanlega velkomna,“ segir Eyjólfur Magnús Kristinsson, forstjóri Advania Data Centers.

„Það eru mjög spennandi verkefni í gangi hjá Advania Data Centers. Félagið hefur náð miklum árangri á skömmum tíma og ég hlakka til að taka þátt í áframhaldandi uppbyggingu, með samstíga hópi reynslumikilla sérfræðinga og stjórnenda. Það eru mikil tækifæri fólgin í rekstrinum, auk þess sem samfélagslegt hlutverk félagsins er áhugavert,“ segir Auður. „Advania Data Centers þjónustar t.d. aðila eins og CERN, evrópska miðstöð rannsókna í kjarneðlisfræði, og frönsku gena-rannsóknastofnunina. Slíkar stofnanir eru að breyta heiminum og það er ánægjulegt að þær skuli velja að leita samstarfs við Advania Data Centers.“ 

Stikkorð: Advania Data Centers