Auður Magndís Auðardóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Samtakanna '78 og mun hefja störf í lok sumars. Þetta kemur fram á vefsíðu samtakanna .

Auður útskrifaðist árið 2007 með meistaragráðu í stjórnmálafélagsfræði frá London School of Economics með áherslu á kynjafræði, þ.á.m. kynverund. Þá hefur hún BA próf í félags- og kynjafræðum frá Háskóla Íslands og stúdentspróf frá Menntaskólanum við Hamrahlíð.

Auður hefur gegnt starfi verkefnastjóra Jafnréttisskóla Reykjavíkur frá 2013, þar sem hún sinnti m.a. jafnréttisráðgjöf til skóla og frístundamiðstöðva og tók þar einnig á málefnum hinsegin fólks. Í starfinu hefur hún m.a. haldið vinnustofur, útbúið kennsluverkefni og leiðbeiningar til kennara og starfsfólks.

Auður starfaði hjá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands á árunum 2007-13 þar sem hún m.a. verkstýrði mörgum verkefnum, vann kostnaðaráætlanir og bar ábyrgð á gæðum verkefna.