Auður Aðalbjarnardóttir mun taka við starfi gæðastjóra/faglegs forstöðumanns hjá Distica af Hrönn Ágústsdóttur, sem mun starfa sem ábyrgðahafi Distica.

Auður er í tilkynningu um ráðninguna sögð hafa víðtæka reynslu úr lyfjageiranum, en hún kemur til Distica frá Alvotech þar sem hún gegndi stöðu deildarstjóra á gæðastjórnunarsviði. Áður starfaði hún sem verkefnastjóri við hönnun og innleiðingu á alþjóðlegu gæðastjórnunarkerfi fyrir Alvogen.

Auður leiddi um árabil þverfaglegt teymi hjá Actavis sem bar ábyrgð á þróun, rannsóknum og skráningu lyfja í fjölda landa. Auk þess hefur hún unnið sem verkefnastjóri í lyfjaskráningum hjá Actavis.

Auður er með M.Sc. í líf- og læknisfræði frá Háskóla Íslands og B.Sc í líffræði frá sama skóla. Auður er gift Unnsteini Grétarssyni og saman eiga þau þrjú börn.

Distica er dótturfélag innan Veritas samstæðunnar sem samanstendur af sex fyrirtækjum þar sem hvert dótturfélag hefur sína stjórn og sinn framkvæmdastjóra. Félagið velti 26 milljörðum í fyrra og þar eru 90 stöðugildi.