Auður Finnbogadóttir hefur verið ráðin verkefnastjóri stefnumótunar hjá Kópavogsbæ.

Auður hefur starfað sem framkvæmdastjóri um árabil, nú síðast hjá Sólheimum ses. þar sem hún leiddi stefnumótun og breytingastjórnunarferli auk endurskipulagningu rekstrar.

Þar áður var hún fimm ár hjá lífeyrissjóðnum Lífsverki.

Þá hefur Auður fjölbreytta reynslu af stjórnarsetu opinberra fyrirtækja og stofnana. Hún situr í stjórn Íslandsbanka hf. og hefur meðal annars setið í stjórn Landsnets og verið stjórnarformaður Samkeppniseftirlitsins.

Auður hefur lokið Diplómagráðu í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands, MBA frá Háskólanum í Reykjavík og er með B.S. gráðu í Business administration frá University of Colorado at Boulder, USA.

Auður mun leiða stefnumótunarvinnu Kópavogsbæjar, en við þá vinnu verður horft til Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.

Kópavogsbær býður Auði velkomna til starfa en hún mun hefja störf í lok ágúst.