*

mánudagur, 1. mars 2021
Erlent 2. desember 2020 14:22

Auður stofnanda Zoom lækkaði skarpt

Gengi bréfa Zoom samskiptafyrirtækisins lækkaði um 15% í kjölfar ársfjórðungsuppgjörs sem sýndi nærri fimmföldun tekna.

Ritstjórn
epa

Gengi bréfa Zoom Video Communcations féll um 15% í kjölfar birtingar fjórðungsuppgjörs félagsins í gær, þrátt fyrir að árangurinn hafi verið umfram væntingar greinenda. Ástæðan er sögð vera merki þess að gífurlegur vöxtur í notkun samskiptaforrits félagsins síðan kórónuveirufaraldurinn breiddist út sé að hjaðna á ný.

Þar með minnkuðu auðæfi stofnanda fyrirtækisins, Eric Yuan um 3,1 milljarð Bandaríkjadala, niður í 17,9 milljarða dala, eða sem nemur um 2.366 milljörðum íslenskra króna, en hann á um 15% alls hlutafjár í fyrirtækinu. Gengi bréfa félagsins hefur hækkað nokkuð aftur í dag.

Tekjur Zoom jukust um 367% á þriðja ársfjórðungi, sem lauk 31. október, frá fyrra ári og námu 777,2 milljónum dala, en væntingar höfðu verið um 694 milljóna dala tekjur. Þar með nam hagnaður félagsins 198,4 milljónum dala á tímabilinu, sem er aukning frá 2,2 milljón dölum á sama tíma fyrir ári.

Auður Yuan hefur nærri tvöfaldast síðan hann komst á 400 manna topplista Forbes yfir ríkasta fólk heims sem tekinn var saman í lok júlí. Hann er því nú 31. ríkasti Bandaríkjamaðurinn.

Ástæða lækkunar hlutabréfanna þrátt fyrir þessa góðu niðurstöðu er að fyrirtækið býst ekki við því að tekjuvöxturinn haldi áfram af sama krafti heldur lækki niður í 329% á fjórða ársfjórðungi, og nemi milli 806 og 811 milljón Bandaríkjadala.