*

miðvikudagur, 1. apríl 2020
Innlent 11. janúar 2020 19:01

Auðvelda Bitcoinkaup landsmanna

Myntkaup hyggst auðvelda landsmönnum að kaupa, selja og sjá um rafmyntina Bitcoin. Bíða eftir skráningu frá FME.

Sveinn Ólafur Melsted
Hluti af hluthafahópi Myntkaupa; Albert Guðlaugsson, Torfi Karl Ólafsson, Kjartan Ragnars, Patrekur Maron Magnússon og Tómas Óli Garðarsson.
Gígja Einarsdóttir

Fyrirtækið Myntkaup býður  landsmönnum upp á einfalda leið til þess að kaupa, selja og sjá um rafmyntina Bitcoin. Félagið var sett á fót fyrir nokkru síðan en bíður nú eftir því að fá samþykki frá Fjármálaeftirlitinu (FME) um skráningu sem þjónustuveitendur sem bjóða upp á viðskipti milli sýndarfjár, rafeyris og gjaldmiðla, til að geta hafið starfsemi. Patrekur Maron Magnússon, framkvæmdastjóri og einn stofnenda Myntkaupa, segist fyrst hafa leitt hugann að Bitcoin fyrir um þremur árum síðan.

„Snemma árs 2017 fór ég að lesa mér til um Bitcoin og tæknina á bak við myntina. Þá áttaði ég mig á því hvað þetta er mikilvæg tækni fyrir framtíðina, því ég tel það mikilvægt fyrir allan heiminn að hafa aðgang að gjaldmiðli sem er ekki stýrt af neinu miðstýrðu valdi. Það er enginn seðlabanki sem stýrir því magni af Bitcoin sem er í umferð, heldur er magnið fast. Margir líta því á þennan gjaldmiðil sem ákveðna áhættuvörn (e. hedge) gegn fjármálakerfinu."

Patrekur kynntist svo síðar Bitcoin áhugamönnum úr hinum ýmsu áttum, m.a. í tölvunarfræðinámi í Háskóla Íslands og út frá því varð Myntkaup til. Í hluthafahópnum má m.a. finna tölvunarfræðinga, lögfræðing, hönnuð og verkfræðing.

„Starfsemi eins og sú sem við munum bjóða upp á er skráningarskyld hjá FME og getum við því ekki hafið starfsemi fyrr en öll tilskilin leyfi eru komin í hús. Það er mikil skriffinnska sem fylgir skráningarumsókninni, en við vonumst til að skráningin verði í höfn nú á fyrsta ársfjórðungi. Heimasíðan okkar, myntkaup.is, er þó komin í loftið, en þar geta áhugasamir framtíðarviðskiptavinir m.a. skráð sig á biðlista og þannig orðið með þeim fyrstu til að nota Myntkaup eftir að síðan verður sett formlega í loftið. Þá er einnig hægt að nálgast bloggfærslur á heimasíðunni, þar sem fjallað er um Bitcoin og ýmislegt fleira sem tengist rafmyntum. Það hafa nú þegar nokkur hundruð manns skráð sig á listann og því virðist vera mikill áhugi fyrir þessari þjónustu sem við ætlum að bjóða upp á," segir Patrekur.

Flókið að kaupa Bitcoin af erlendum aðilum

Patrekur segir að hugmyndin á bak við Myntkaup hafi orðið til eftir að hann kynntist því hve flókið það getur verið að kaupa Bitcoin í gegnum erlenda aðila. „Ég áttaði ég mig fljótt á því hversu flókið það er að kaupa myntina fyrir þann sem er að koma nýr inn í þennan rafmyntaheim; ég hafði ekki hugmynd um hvert ég ætti að snúa mér til þess að kaupa Bitcoin. Það voru einungis erlendir aðilar sem voru að bjóða fólki upp á að kaupa Bitcoin og vegna alþjóðlegra reglna um varnir gegn peningaþvætti þá þarf viðskiptavinurinn að framvísa persónuskilríkjum til að geta stundað viðskiptin. Ég þurfti því að senda mynd af vegabréfinu mínu á erlendan þjónustuaðila og sem dæmi má nefna að í eitt skiptið lenti ég í því að þurfa að eiga í samskiptum við mann sem var staddur í Indlandi í gegnum Skype, til þess að geta keypt Bitcoin af erlendum þjónustuaðila. Fyrirhöfnin var því talsverð, auk þess sem þetta ferli er tímafrekt.

Þegar kom að því að greiða fyrir Bitcoin-kaupin var maður að lenda í því að senda peninga með millifærslu út í kosmósið og vonaðist svo til að þetta myndi ganga í gegn. Það er ekkert sérstaklega traustvekjandi að millifæra töluverðar fjárhæðir til erlends aðila sem maður veit lítið sem ekkert um. Ég veit um fullt af fólki sem hefur haft áhuga á að kaupa Bitcoin en svo strandað vegna þess hve flókið þetta allt saman er. Eftir að hafa kynnst því hvað þetta kaupferli var mikið vesen, fékk ég þá hugmynd að smíða lausn sem gerði fólki hér á Íslandi mjög auðvelt með að nálgast Bitcoin. Á Íslandi er notast við rafræn skilríki og því munu viðskiptavinir okkar sleppa við vesenið sem fylgir því að framvísa persónuskilríkjum. Það verður því töluvert auðveldara fyrir fólk hér á landi að kaupa Bitcoin í gegnum kerfi frekar en af erlendum aðilum og einnig mun það taka skemmri tíma." 

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér