*

miðvikudagur, 19. janúar 2022
Innlent 11. febrúar 2017 19:45

Auðvelda virðismat og sölu fasteigna

Guðmundur Andri Skúlason, einn eigenda Procura, hefur undanfarið unnið að því að hanna hugbúnaðarlausn sem metur söluverð fasteigna á landinu.

Pétur Gunnarsson
Guðmundur Andri vill nútímavæða ferlið við virðismat fasteigna.
Haraldur Guðjónsson

Guðmundur Andri Skúlason fer fyrir verkefnisem á að virka sem nokkurs konar samfélagsgátt þar sem allir geta séð og borið saman raunverð allra fasteigna, séð af þeim mynd og skráð sína eign til sölu eða leigu, endurgjaldslaust. Hann segir að ef fólk treysti sér til geti það klárað samningana sjálft innan kerfisins og að sú þjónusta verði einnig ókeypis, en kerfið er í hönnun.

„Breytingin er að nú notar fólk símann til að nálgast þjónustu um netið frekar en að hringja. Þjónustan verður að taka mið af þessu og þess vegna fórum við þessa leið,“ tekur Guðmundur Andri fram. Hann bætir við að þeim þyki það „fráleitt“ að það sé enn verið að innheimta að meðaltali 800 þúsund krónur fyrir það að gera kaupsamning um fasteign þegar skjalavinnslan taki innan við tvær klukkustundir.

„Fasteignamarkaðurinn veltir um 400 milljörðum króna á ári og þóknanatekjur eru að lágmarki 7,5 milljarðar og okkar markmið er að lækka kostnað milliliða umtalsvert ásamt því að auka þjónustuna og nútímavæða ferlið,“ bætir Guðmundur Andri við.

Frumkvöðlanna að uppfylla kröfur notenda

Guðmundur Andri segir að viðskiptamódel Procura taki mið af því að notendur séu almennt vanir því að nálgast þjónustu á netinu endurgjaldslaust. „Þess vegna er það okkar, frumkvöðlanna, að finna leiðir sem uppfylla þessar kröfur og við teljum okkur hafa fundið leiðina í þessu verkefni,“ tekur hann fram.

„Það þýðir ekkert að vera eins og allir hinir. Það þarf að gera eitthvað annað. Svo ég bjó til verð- matsreiknirita þannig að nú get ég reiknað verð á öllu íbúðarhúsnæði á landinu, miðað við daginn í dag,“ segir hann. Hann bætir við og segir að sex mánaða prófanir hafi leitt það í ljós að reiknað verð Procura sé að meðaltali 0,9% frá ásettu verði miðað við fasteignaverð á Mbl.is. „Þannig að ég myndi segja að þetta sé býsna öflug græja sem við erum komin með,“ segir Guðmundur Andri.

Umbreyta mikilvægasta markaði landsins

Spurður að því hvernig græjan virki, segir Guðmundur Andri að notendur geti slegið inn heimilisfang og ýtt á „enter“. „Þá færð þú markaðsvirði þinnar eignar og getur jafnframt flett upp hjá Nonna frænda, Siggu frænku eða nágrannanum,“ bætir hann við

Hann segir að teknir séu ótalmargir þættir inn í reikniritann. „Það eru ógrynni af atriðum sem við notum til að reikna þetta út. En í grunninn erum við að nota sömu aðferðir og fasteignasalar gera og við göngum út frá svipuðum forsendum í opinberum gögnum, nema ég skoða ekki eignina og það er fyrirvari sem við setjum,“ segir Guðmundur Andri.

Nánar er fjallað um málið í fylgiriti Viðskiptablaðsins, „Fundir & ráðstefnur". Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: fasteignir App virðismat Procura