„Það verður mjög spennandi að sjá hversu vel fyrirtæki, og einstaklingar, taka við sér og auka framlög sín til almannaheillasamtaka með samþykkt frumvarpsins, sem snýst um að stórauka möguleika til að njóta skattalegs hagræðis af því að gefa til slíkrar starfsemi," segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, um nýtt frumvarp sem fjallar um breytingar á ýmsum lögum um skatta og gjöld almannaheillasamtaka og framlaga til þeirra.

„Við höfum fengið gríðarlega jákvæð viðbrögð við frumvarpinu og ég er í engum vafa um að þetta getur skipt miklu fyrir fjölmörg félög út um allt land." Gert er ráð fyrir að breytingarnar í frumvarpinu kosti ríkissjóð í heildina um 2 milljarða árlega í tapaðar tekjur, en með því á að jafna rekstrarumhverfi almannaheillasamtaka við það sem gerist á hinum Norðurlöndunum.

„Maður getur haft þónokkrar væntingar um að aukning framlaga verði umtalsverð miðað við það stökk sem varð þegar við tókum það litla skref að hækka heimilað hlutfall til skattafrádráttar úr hálfu prósenti af veltu fyrirtækja í 0,75%. Þá jukust framlög fyrirtækjanna um nærri milljarð milli ára," segir Bjarni.

Þegar sú breyting tók gildi 1. janúar 2016 vegna tekna ársins 2015 jukust slíkar gjafir og framlög til almannaheillasamtaka úr tæplega 2,8 milljörðum króna í rétt rúmlega 3,7 milljarða króna.

„Núna erum við að tvöfalda það hlutfall upp í 1,5%, til viðbótar að við höfum bætt við öðru eins, 1,5%, sem eru eyrnamerkt í græn verkefni. Það verður líka athyglisvert að sjá hvernig það mun skila sér til skógræktar og annarra álíka verkefna. Síðan en ekki síst verður áhugavert hvernig almenningur mun taka við sér vegna ákvæðisins um frádrátt frá skattstofni einstaklinga."

Verði ekki háð samningum við ríkið

Auk undanþágu frá ýmsum sköttum bætir frumvarpið við heimild til einstaklinga til frádráttar á allt að 350 þúsund krónum af skattstofni sínum á gjafafé til almannaheillasamtaka. Bjarni segir að reglulega liggi á borðum hans óskir um framlög til slíkra samtaka af fjárlögum.

„Ég er að sjálfsögðu að vonast til þess að með breytingunum geti almannaheillastarfsemi í auknum mæli treyst á frjáls framlög, og geti samhliða því vaxið og dafnað á eigin spýtur og sé síður háð því að komast á samninga við ríkið. Það er engin þörf fyrir milliliði milli fólks og starfsemi til almannaheilla, það heitir bara kerfisvæðing, og hún hefur þá tilhneigingu að verða þunglamaleg og óskilvirk. Það er allt heilbrigðara við að fólk hafi sjálfdæmi og frelsi í því að styðja við starfsemi af þessum toga," segir Bjarni.

„Það er miklu meira og betra aðhald fólgið í því að fólk reiði stuðning til góðgerðastarfsemi af ýmsu tagi af hendi milliliðalaust, en við eigum því miður mörg dæmi um það í sögunni að slík starfsemi treystir á að komast á ríkisspenann. Það hefur orðið til einhver sjálfvirkni í opinberum útgjöldum til alls konar slíkrar starfsemi, sem og það hefur ekki verið nægjanlegt eftirlit með fjármununum, oft ekki gerðir neinir þjónustusamningar þó jafnvel sé kveðið á um það, og þegar þeir eru til staðar hefur ekki verið eftirlit með þeim. Þannig hafa engir verið til þess að fylgjast með því að verið sé að veita þá þjónustu og sinna þeirri starfsemi sem heitið er, og það er hreinlega óverjandi að taka skattfé af fólki og verja þeim með slíkum hætti."

Sjálfvirkt inn á skattframtalið

Bjarni er sérstaklega ánægður með að í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að gjafir einstaklinga til almannaheillasamtaka muni koma sjálfkrafa inn á skattframtal þeirra.

„Það er frábær niðurstaða og ég verð að segja að þeir sem komu að undirbúningi þessa máls í ráðuneytinu stóðu sig sérstaklega vel við að hanna þá lausn. Það er algert lykilatriði því annars þyrfti fólk að geyma kvittanir og fylla gjafaféð út í skattframtalinu sjálft, sem myndi farast fyrir í mörgum tilvikum. Þetta tryggir að kerfið er skilvirkt og svo er þetta líka svo heiðarleg nálgun, því það sést vel að við erum að meina þegar við segjum að við ætlum að gefa skattfríðindi út á þetta, í stað þess að við séum að vonast til þess að fólk gleymi því að fylla út flókin form," segir Bjarni.

Í frumvarpinu felst einnig ýmiss konar undanþága til almannaheillasamtaka til greiðslu skatta til viðbótar við það sem verið hefur. Til að mynda verða þau undanþegin greiðslu virðisaukaskatts með ákveðnum skilyrðum, þar á meðal varanleg endurgreiðsla á allt að 60% af vinnu manna við byggingu, viðhald og endurbætur á mannvirkjum, auk undanþága frá tekjuskatti, fjármagnstekjuskatti og greiðslu stimpilgjalda. Loks er lögð til undanþága frá greiðslu erfðafjárskatts af gjöfum til almannaheillastarfsemi.

„Það sem upphaflega kveikti í mér áhuga á þessu máli var að Vestur-Íslendingur að nafni Don Johnson kom að máli við mig þegar ég var heiðursgestur á Íslendingadeginum í Vesturheimi árið 2012.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .