Frá og með áramótum verður auðveldara fyrir aðstandendur námsmanna og EES borgara að flytja til landsins og makar íslenskra ríkisborgara þurfa ekki lengur sérstakt atvinnuleyfi hér á landi.

Jafnframt eiga lögin að auðvelda námsmönnum og sérfræðingum að setjast hér að til frambúðar. Samtök atvinnulífsins fjalla á heimasíðu sinni um áhrif nýrrar löggjafar um útlendinga sem tekur gildi nú um áramótin.

Auðveldara fyrir aðstandendur að setjast að óháð ríkisfangi

Eitt af markmiðum lagasetningarinnar er að auka samkeppnishæfni landsins en lögin framlengja til að mynda heimild til að veita tímabundið atvinnuleyfi í allt að tvö ár. Hingað til hefur heimildin verið í eitt ár.

Að auki geta nú nánustu aðstandendur EES borgara sem hafa dvalarrétt eða rétt til ótímabundinnar dvalar hér á landi, fengið rétt til að stunda atvinnu eða gerast sjálfstætt starfandi einstaklingar hér á landi, óháð þeirra eigin ríkisfangi.

Jafnframt verða makar íslenskra ríkisborgara undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi.

Verður auðveldara að setjast að hér til frambúðar

Samtök atvinnulífsins benda á að með lögunum verður auðveldara fyrir fyrirtæki að ráða erlenda sérfræðinga en önnur áhrif af lögunum er að einstaklingar sem myndað hafa tengsl við samfélagið og fyrirtækin sem þeir vinna hjá geti auðveldar sest að hér á landi til frambúðar.

Þarf útlendingur sem staddur er hér á landi til dæmis í tengslum við atvinnuviðtöl ekki lengur að fara úr landi ef hann sækir um tímabundið atvinnuleyfi ef ákvörðun Útlendingastofnunar um að honum sé heimil dvöl liggi fyrir.

Eykur sveigjanleika fyrir atvinnurekendur

Ætlunin með lagabreytingunni er að stuðla að auknum sveigjanleika fyrir atvinnurekendur við mannaráðningar.

Þýðir það meðal annars að sérfræðingar geta hafið störf hér á landi jafnvel meðan beðið er afgreiðslu umsóknar um dvalar- og atvinnuleyfi.

Einnig verður heimilt að taka umsóknir um tímabundin atvinnuleyfi sérhæfðra starfsmanna sem ráðnir eru á grundvelli þjónustusamnings fyrir á undan öðrum umsóknum.

Aðstandendur námsmanna geta nú sest hér að

Nánustu aðstandendur námsmanna sem dvelja hér á landi geta nú fengið tímabundið atvinnuleyfi og námsmennirnir sjálfir fá tímabundið dvalarleyfi í allt að 12 mánuði í senn í stað 6 mánuða áður.

Jafnframt getur námsmaðurinn, sem og nánustu aðstandendur hans, leitað eftir störfum á grundvelli sérfræðiþekkingar sinnar í allt að sex mánuði eftir að hann lýkur námi sínu. Með þessu er reynt að stuðla að því að þeir setjist hér að í ríkari mæli en áður.

Útlendingar geta nú verið ráðnir í starfsnám hjá fyrirtækjum, að því gefnu að menntastofnun hafi staðfest að starfsnámið sé nauðsynlegur hluti af náminu.