Á Íslandi er til staðar mikil reynsla og þekking, t.d. í sjávarútvegi, í nýtingu jarðhita og fleiri greinum. Þessa þekkingu og reynslu geta Íslendingar nýtt sér til tekna í löndum á borð við Ekvador.

Þetta segir Pablo Campana , ráðherra utanríkisviðskipta Ekvador. Á mánudag í síðustu viku var skrifað undir fríverslunarsamning á milli Ekvador og EFTA ríkjanna, þ.e. Íslands, Noregs, Sviss og Liechtenstein. Skrifað var undir samninginn á Hólum í Hjaltadal en ráðherrafundur EFTA ríkjanna fór fram á Sauðárkróki helgina áður.

Campana segir samninginn hafa mikla þýðingu fyrir bæði Ísland og Ekvador.

„Margar af helstu útflutningsvörum okkar, s.s. bananar, kakó, súkkulaði, rækjur og blóm, eru þegar flutt til fjölmargra ríkja í Evrópu – þar á meðal Íslands,“ segir Campana .

„Aftur á móti eru fríverslunarsamningar, á borð við þann sem við höfum nú gert við EFTA ríkin, til þess fallnir að lækka verð enn frekar en ekki síður til að einfalda reglur, gera skýrari skil um upprunavottanir , afnám á tæknilegum hindrunum og fleira sem auðveldar viðskipti á milli landanna.“

Á síðasta ári tók gildi fríverslunarsamningur á milli Ekvador og Evrópusambandsins. Campana segir að þrátt fyrir það hafi jafnframt verið mikilvægt að gera sambærilegan samning við EFTA ríkin.

„EFTA svæðið telur um 14 milljónir íbúa og ég hef áður sagt að með þessum samning fær Ekvador aðgengi að helstu velmegunarríkjum Evrópu. Um 99% af útflutningsvörum okkar bera nú enga tolla í viðskiptum við EFTA ríkin,“ segir Campana en íbúar Ekvador eru um 16,5 milljónir.

Mikil þekking og reynsla á Íslandi

Sem fyrr segir telur Campana að íslensk fyrirtæki geti nýtt þau tækifæri sem samningurinn býður upp á, þá sérstaklega í tækni og vélabúnaði.

„Íslendingar eru mjög framarlega í framleiðslu á ýmis konar tækni í sjávarútvegi og matvælaframleiðslu, svo tekin séu dæmi. Fyrirtæki á borð við Marel, Skaginn 3X og Hampiðjan eru nokkur dæmi um fyrirtæki sem geta selt vörur sínar og þjónustu erlendis í enn meira magni,“ segir Campana .

„Það þarf vart að nefna þá gífurlega miklu reynslu og þekkingu sem Íslendingar búa yfir við nýtingu á jarðvarma og fallvötnum. Með fríverslunarsamningnum opnast frekari tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki til að selja þjónustu sína og framleiðslu auk þess sem tækifæri opnast fyrir fjárfestingar.“

Í ræðu sinni við undirritun samningsins sagði Campana að stjórnvöld í Ekvador hafðu nýlega breytt lögum um erlendar fjárfestingar í þeim tilgangi að veita réttarvissu, fyrirsjáanleika og skattaívilnanir.

Aðspurður nánar um þetta segir Campana að lagabreytingunum sé ætla að hvetja til fjárfestinga, bæði innlendra og erlendra.

Tæplega 700 milljóna króna viðskipti

Bananar eru ein stærsta útflutningsvara Ekvador. Til gamans má geta þess að árlega eru flutt yfir þrjú tonn af bönunum frá Ekvador til Íslands. Aðrar algengar útflutningsvörur eru ávextir og grænmeti, kakó, fiskiolía, rósir ásamt rækjum, túnfiski og öðrum sjávarafurðum.

Í tilkynningu frá ráðuneyti utanríkisviðskipta Ekvador, sem send var við undirritun samningsins, kom fram að útflutningsvermæti til EFTA ríkjanna hafi á síðasta ári numið um 110 milljónum Bandaríkjadala á meðan innflutningur nam um 120 milljónum dala. Samkvæmt upplýsum frá ráðuneytinu námu milliríkjaviðskipti á milli Íslands og Ekvador um 6,4 milljónum dala á síðasta ári, eða um 690 milljónum króna.