Erfitt getur reynst að semja við bankana við stofnun fyrirtækja, að sögn Guðrúnar Jóhannesdóttur, framkvæmdastjóra verslunarinnar Kokku. Hún var ein fimm stofnenda fyrirtækja í pallborði á Smáþingi Samtaka atvinnulífsins í dag. Á meðal umræðuefnanna var stofnun fyrirtækja og hvernig þyrfti að breyta rekstrarumhverfinu og bæta það.

Guðrún tók sem dæmi stofnun Kokku og velti upp þeirri spurningu hvort það væri nauðsynlegt að vera heppin í slíkum samskipum. Eðlilegra væri að reglur væru skýrari og einfaldari. Ekki væri eðlilegt að auðveldara sé að fá lán fyrir jeppa frekar en atvinnutæki.

Undir þetta tók Árni Þór Árnason, stofnandi og stjórnarformaður Oxymap. Hann sagðist ekki hafa mætt miklum skilningi hjá viðskiptabankanum þegar aukið rekstrarfé hafi vantað í fyrirtækjareksturinn. Þau viðbrögð undraðist Árni Þór því fyrirtæki eins og Oxymap hafi mikil margföldunaráhrif. Með slíku fyrirtæki kæmi gjaldeyri inn í landið sem vissulega væri þörf á, að hans sögn.