Fjármunirnir sem lagðir voru í nýsköpunarfyrirtækið Oz á sínum tíma fóru ekki til spillis. Fyrirtækið var dýrmætur skóli, að sögn Hilmars V. Péturssonar, forstjóra CCP. Morgunblaðið fer í dag yfir erindi sem Hilmar hélt á Nýsköpunarþinginu í gær. Hilmar sagði þar CCP aldrei hafa getað orðið að því fyrirtæki sem það er í dag ef margir af fyrstu starfsmönnunum hefðu ekki áður unnið hjá OZ.

Hilmar sagði m.a. á þinginu að nú sé afar erfitt að fá leyfi frá hinu opinbera fyrir erlenda starfsmenn fyrirtækisins geti fengið að búa hér á landi. Á sama tíma sé skortur á tæknimenntuðu fólki hér á landi og því sé mikilvægt fyrir tæknifyrirtæki að geta ráðið til sín erlent starfsfólk, sem þjálfi um leið aðra starfsmenn fyrirtækisins. Þekking þeirra hafi því margfeldisáhrif innan fyrirtækisins.

Hilmar sagði að á sama tíma og hann hafi verið að reyna að afla leyfa fyrir bandarískan hugbúnaðarsérfræðing flutti hann inn kórala sem njóta verndar alþjóðasamfélagsins til að setja í fiskabúr CCP án vandkvæða.

„Það var erfiðara að flytja inn bandarískan hugbúnaðarsérfræðing til landsins en kórala,“ hefur Morgunblaðið eftir honum.