Nauðasamningar slitastjórnar Glitnis eru tilbúnir en bankinn bíður enn eftir undanþáguheimild frá íslenskum yfirvöldum til þess að geta greitt kröfuhöfum út. Þetta segir Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnarinnar í samtali við
Viðskiptablaðið.

Slitastjórnin hélt óformlegan kröfuhafafund í New York á þriðjudaginn þar sem staða mála var kynnt. Í auglýsingu fyrir fundinn kom fram að tilgangur hans væri að greina frá stöðu nauðasamningsfrumvarpsins, samskipti slitastjórnarinnar við stjórnvöld á Íslandi, söluferli Íslandsbanka, sem er í 95% eigu Glitnis, og næstu skref.

Steinunn segir það ekki vera nýmæli að halda upplýsingafundi af þessu tagi utan Íslands. „Við höfum haldið formlega fundi á Íslandi. En þegar við höfum verið með svona upplýsingafundi, þá höfum við haft þá í New York eða London,“ segir Steinunn. Þannig sé auðveldara fyrir kröfuhafa að mæta og slitastjórnin nái þannig til stærri hóps.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð.