Samruni framleiðslufyrirtækjanna Sagafilm og GunHil tók formlega gildi um mánaðamótin, en greint var frá því í nóvember síðastliðnum að fyrrnefnda fyrirtækið myndi kaupa allt hlutafé í því síðarnefnda. Samhliða kaupunum var Hilmar Sigurðsson, forstjóri GunHil, ráð­ inn forstjóri Sagafilm, og hefur hann gegnt því starfi frá áramótum. GunHil, sem framleiðir tölvuteiknimyndir, verður áfram rekið sem sjálfstætt dótturfélag Sagafilm.

Hilmar segir augljóst að íslensk framleiðsla sé í síauknum mæli að njóta mikillar hylli erlendis. Nefnir hann sem dæmi að Réttur 3, sem á ensku nefnist „Case“, nær til um 200 milljóna áhorfenda m.a. í gegnum Netflix og HBO í Evrópu auk fleiri áskriftarstöðva.

„Við finnum meðbyrinn eftir að hafa komið þeirri þáttaröð á erlendan markað. Þá verður það auðveldara með næstu þáttaröð. Til dæmis hefur Stella Blómkvist verið seld til tuga landa,“ segir Hilmar. Önnur sjónvarpsþáttaröð sem er nú í bígerð hefur þegar vakið athygli stórs erlends dreifingaraðila sem borgar á annað hundrað milljónir fyrir dreifingarrétt á þeirri þáttaröð erlendis.

„Það sama á við um Lóa, við gengum t.d. frá samningi í Cannes sem nær einungis til Frakklands og samningsvirði hans, með dreifingu, fjárfestingum í auglýsingum og öðru, er einnig á annað hundrað milljónir. Sem teiknimynd er Lói í raun alþjóðlegri og auðvelt að framleiða á mörgum tungumálum, en Réttur 3 er á íslensku og það er í sjálfu sér stórmerkilegt hvernig eftirspurnin eftir þessu efni vex,“ segir Hilmar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.