„Ef ríkisstjórnin kemur ekki fram með slíkt frumvarp mun ég leggja það fram sjálfur,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við Fréttablaðið . Á hann þar við frumvarp um breytingar á lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, en hann vill að lögin verði líkari lögum um starfsfólk á almennum vinnumarkaði.

Þá segir Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, að hún hafi lengi verið talsmaður þess að lögunum yrði breytt svo auðveldara verði fyrir opinberar stofnanir að segja upp starfsfólki og á almennum markaði. Hluti af tillögum hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar fjallar um að nýta mannauð betur og sameina stofnanir og telur Vigdís að á einhvern hátt þurfi að hagræða. „Eins og staðan er í dag er mjög erfitt, nánast ómögulegt, að segja upp opinberum starfsmönnum,“ segir hún í samtali við Fréttablaðið.